Veiði

3.638 fiskar á viku tvö í Veiðivötnum

Karl Lúðvíksson skrifar
Veiðimaður með 10 punda urriða úr Grænavatni
Veiðimaður með 10 punda urriða úr Grænavatni Mynd: Bryndís Magnúsdóttir

Það er hörkugangur í silungsveiðinni um allt land og veiðimenn sem sækja stíft í silunginn í sumar líklega þakklátir fyrir veðurblíðuna sem hefur varið í allt sumar.

Það sést á veiðitölunum úr Veiðivötnum að veiðin er ljómandi góð og veðrið hefur verið mun betra en í fyrrasumar. Það hjálpar auðvitað mikið því þá standa veiðimenn lengur við vötnin og að sama skapi tekur fiskurinn oft betur í blíðskaparveðri og þá sérstaklega á morgnana og á kvöldin.

Heildarveiðin í annari viku í Veiðivötnum er 3.638 fiskar sem skiptist þannig að það hafa veiðst 1.642 urriðar og 1.996 bleikjur. Mesta veiðin er í Snjóölduvatni en þar er mikið af bleikju og flestir  sem stoppa þar við mokveiða en hún er ekki stór. 997 fiskar veiddust svo úr Litlasjó. Heildarveiðin í Veiðivötnum er þá komin í 7.658 fiska og mesta veiðin enn sem komið er kemur úr Litlasjó enda er það vatn langsamlega mest stundað af vötnunum.

Stærsti fiskurinn er ennþá 13,2 punda urriði sem veiddist í Hraunvötnum. Eitthvað er af lausum stöngum í sumar svo þeir sem hafa verið óheppnir með veður og vatnsleysi í laxveiðiánum eiga góðan séns á fiski ef þeir bara drífa sig upp eftir.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.