Veiði

Besti tíminn laus í Soginu

Karl Lúðvíksson skrifar
Sogið er magnað.
Sogið er magnað. Mynd: SVFR

Sogið er ein af þessum ám sem getur tekið tíma að læra vel á en þeir sem gera það elska fáar ár meira en hana.

Sogið hefur átt sín upp og niður ár en þegar laxveiðin er minni er bleikjuveiðin oft mjög góð og þarna eru líklega stærstu bleikjurnar sem þú finnur á suðvesturlandi. Það getur verið alveg magnað að veiða til dæmis Bíldsfellsbreiðuna og róta með fótunum í hverju skrefi, sjá svo bleikjurnar raða sér upp í straumröstina og týna upp það æti sem þú mokar upp í hverju skrefi.

Sogið er magnað. Alveg frá efsta veiðistað sem er Útfallið og niður í Hvítá er þetta krefjandi og spennandi veiðisvæði. Það er þess vegna skrítið að sjá hvað það er mikið af lausum leyfum í ánna en líklega stafar það af minni laxveiði til dæmis í fyrra. Veiðileyfin í Sogið hafa verið að lækka mikið ólíkt öðrum ám en nú er til dæmis hægt að fá besta tímann bæði á Bíldsfelli og Ásgarði en svæðin eru til sölu hjá SVFR og Lax-Á. "Prime time" til að mynda í Bíldsfelli er lok júlí og fyrsta vikan í ágúst. Nú eru nokkuð margar stangir lausar á þessum tíma og þegar þú ert að borga undir 40.000 fyrir daginn með flottu húsi þá er ekki hægt að kvarta. SVFR selur í Bíldsfell og Alviðru sem er neðsta svæðið. Það hefur lítið verið stundað en er fornfrægt svæði og allur lax sem veiðist á efri svæðunum þarf að fara þarna í gegn. Þarna er líka mikið af vænni bleikju.

Leyfin eru aðeins dýrari í Ásgarði en ekki mikið. Þrjár stangir saman til dæmis í byrjun ágúst eru á 147.000 allar saman með húsinu. Bíldsfellið geymir magnaða veiðistaði eins og Útfall, Lækjarbreiðu, Bíldsfellsbreiðu, Melhorn og Tóftir svo nokkrir séu nefndir. Ásgarðurinn á klárlega einn af bestu stöðunum í ánni sem heitir Frúarsteinn. Ef þú hefur ekki prófað Sogið þá er líklega kominn tími til að prófa, líkurnar á því að finna veiðileyfi á besta tíma með lax og bleikju á þessu verði eru ekki miklar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.