Fótbolti

Jón Dagur: Kemst ekki í A-landsliðið spilandi varaliðsbolta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson spilar í Danmörku í vetur.
Jón Dagur Þorsteinsson spilar í Danmörku í vetur. vísir/vilhelm

Jón Dagur Þorsteinsson, leikmaður U21 árs landsliðs karla í fótbolta, verður í eldlínunni með strákunum okkar þegar að þeir mæta Eistlandi hér heima á fimmtudagskvöldið í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Jón er á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Fulham en var lánaður til Vendyssel í dönsku B-deildinni í síðustu viku þar sem að hann fær nú að spila reglulega alvöru fótbolta. Hann hefur verið fastamaður í varaliði Fulham og verið einn besti leikmaður þess liðs.

„Maður var orðinn svolítið þreyttur á þessum varaliðsbolta. Það er gott að komast í umhverfi þar sem maður sér fram á að spila með aðallinu og geta komið ferlinum af stað. Ég er mjög sáttur og jákvæður á framhaldið,“ segir Jón Dagur sem taldi sig þurfa að fara núna.

„Það var margt sem að spilaði inn í. Fulham byrjaði illa. Þá var erfitt að fá tækifæri og svo þegar að líða fór á tímabilið vann liðið hvern einasta leik. Gengi liðsins hjálpaði mér ekkert en auðvitað vill maður fá tækifæri,“ segir hann.

„Um leið og að liðið fór upp í úrvalsdeildina vissi ég strax að ég þyrfti að fara á lán til að spila einhvern bolta. Fulham fékk fullt af peningum fyrir að komast upp og pressan er mikil þannig að það er erfitt að fá sénsinn fyrst í úrvalsdeildinni. Ég þurfti því að fara annað til að fá séns,“ segir Jón Dagur.

Jón Dagur hefur leikið með unglingalandsliðum Íslands nær allan sinn feril og nú eru nýir tímar hjá A-landsliðinu. Stökkið upp í það fyrir öfluga vængmenn er kannski ekkert svo stórt ef hann nýtir sín tækifæri í Danmörku.

„Maður kemst ekkert í A-landsliðið ef maður er að spila einhvern varaliðsbolta. Ég leit á þetta þannig að ég þyrfti að koma mér í aðalliðsbolta til að vera inn í myndinni. Maður þarf samt að spila fyrst og sjá hvað gerist,“ segir Jón Dagur Þorsteinsson.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.