Lífið

Alþjóðadagur flóttafólks haldinn hátíðlegur í dag

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Alþjóðadagur flóttamanna er í dag og af því tilefni býður Rauði krossinn í bíó.
Alþjóðadagur flóttamanna er í dag og af því tilefni býður Rauði krossinn í bíó. Rauði krossinn

„Þetta er dagur sem ætlað er að vekja athygli á stöðu flóttafólks í heiminum. Við hjá Rauða krossinum, vegna þess að við erum mikið að velta stöðu flóttafólks fyrir okkur og aðstoða það og annað, höfum ákveðið að sýna tvær myndir um flóttafólk í tilefni dagsins,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Myndirnar verða sýndar í Bíói Paradís, það er ókeypis inn á sýningarnar og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Rauði krossinn býður upp á þessar sýningar í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Myndirnar sem sýndar verða eru annars vegar Sea of Sorrow Sea of Hope og hins vegar Je n’aime plus la mer.

„Sea of Sorrow Sea of Hope fjallar um konu sem er flóttamaður og hennar sögu, hvernig hún verður viðskila við börnin sín. Hin er sögð út frá sjónarhóli barna sem eru á flótta. Þau eru frá ýmsum löndum og eru komin til Belgíu – þar er fjallað um hvernig þau ná að fóta sig þar sem þau eru allt í einu komin í nýtt land eftir að hafa þurft að flýja stríð. Þetta er gríðarlega áríðandi umfjöllunarefni vegna þess að það hafa aldrei verið fleiri á flótta í heiminum.

En þó að þetta sé alvarlegt um­fjöllunar­efni verður líka boðið upp á arabískan mat, það verða hljóðfæraleikarar hér úr röðum flóttafólks á Íslandi þannig að það verður létt stemming líka.“

Einnig verður hægt að skoða ljósmyndasýninguna Bið/The Wait sem verður sett upp í anddyri bíósins og taka þátt í umræðum um myndirnar eftir sýningu. Myndirnar verða sýndar með enskum texta og hefjast leikar klukkan hálf átta í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.