Viðskipti erlent

T-Mobile og Sprint í eina sæng

Stefán Ó. Jónsson skrifar
John Legere, forstjóri T-Mobile, er spenntur fyrir samrunanum.
John Legere, forstjóri T-Mobile, er spenntur fyrir samrunanum. Vísir/getty
Bandaríski fjarskiptarisinn T-Mobile hefur samþykkt að festa kaup á einum helsta keppinauti sínum, fjarskiptafyrirtækinu Sprint, fyrir um 26 milljarða bandaríkjadala. Upphæðin nemur um 2600 milljörðum íslenskra króna.

Um er að ræða samruna þriðja og fjórða stærsta fjarskiptafyrirtækis Bandaríkjanna. Forsvarsmenn fyrirtækjanna segja að samruninn muni auka samkeppnishæfni sameinaðs fyrirtækis og auðvelda því að veita viðskiptavinum sínum betri þjónustu. Þeir eru um 130 milljónir talsins.

Þó má ætla að eitthvað sé í það að samruninn gangi í gegn. Samkeppnisyfirvöld vestanhafs eiga eftir að gefa grænt ljós á samrunann, sem talinn er geta haft töluverð áhrif á verðlag á bandarískum fjarskiptamarkaði. Fyrirtækin tvö hafa rætt samruna frá árinu 2014  en ríkisstjórn Baracks Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, lagði stein í götu viðræðnanna til að sporna við auðhringamyndun í geiranum.

Forstjóri T-Mobile, John Legere, er þó hvergi banginn og segir að hið sameinaða fyrirtæki muni verja 40 milljörðum dala, 4000 milljörðum króna, í þróun og uppsetningu nýs 5G fjarskiptanets. Hann segir afkastagetu slíks nets vera um 30-falt meiri en núverandi kerfis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×