Erlent

Stukku fram af svölum til að sleppa undan eldhafi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stúlkurnar virtust hætt komnar í myndbandi af atvikinu. Betur fór en á horfðist.
Stúlkurnar virtust hætt komnar í myndbandi af atvikinu. Betur fór en á horfðist. Vísir/Skjáskot
Mikil mildi þykir að ekki hafi farið verr þegar eldur kviknaði í danssal í bænum Edgewater í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum í gær. Nokkrar stúlkur, sem voru í salnum þegar eldurinn kviknaði, þurftu að láta sig falla fram af svölum byggingarinnar til að komast lífs af úr eldhafinu.

Samkvæmt frétt BBC héldu viðbragðsaðilar að búið væri að rýma bygginguna þegar einhverjir þeirra urðu varir við stúlkurnar, sem þá voru fastar inni í danssalnum.

Í myndbandi af vettvangi sjást vegfarendur hrópa til stúlknanna og biðja þær að brjóta rúðu til að komast út. Nokkrar stúlknanna þurftu þó á endanum að fara út á svalir byggingarinnar og láta sig falla til jarðar úr töluverðri hæð.

Stúlkurnar komust allar óhultar út, að því er segir í frétt BBC, og þá slasaðist engin þeirra alvarlega. Eldsupptök eru ókunn.

Myndband af atvikinu má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×