Fastir pennar

Fíklar í skjól

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Svokölluð neyslurými fyrir fíkniefnaneytendur, verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem sprauta eiturlyfjum í æð geta komið og neytt vímuefna við öruggar aðstæður og viðunandi hreinlæti undir handleiðslu heilbrigðisstarfsfólks, hafa gefið góða raun - kallast skaðaminnkunarúrræði.

Markmiðið er að draga úr heilsutjóni og félagslegum og efnahagslegum afleiðingum eiturlyfjaneyslu. Áhersla er lögð á að koma í veg fyrir skaðann sem neyslan veldur, en ekki endilega fyrirbyggja notkunina sjálfa, þó að það sé auðvitað keppikeflið til lengri tíma litið. En horfst er í augu við þá sorglegu staðreynd, að neytandinn hefur misst tökin á lífi sínu og fíknin náð yfirhöndinni. Þetta er mannúðarstarf.

Neyslurými af þessu tagi er að finna víða um heim. Árið 2016 voru 74 slík í daglegri notkun í evrópskum borgum, þar á meðal í Kaupmannahöfn. Reynsla Dana er tvímælalaust góð og auðséð að samfélagið hefur tekið neyslurýmin í sátt, bæði fíklarnir og fólk almennt. Lögreglan á stóran þátt í þessum miklu framförum. Hún vísar neytendunum á neyslurýmin. Nýlega hafa Kanadamenn og Ástralir fylgt fordæminu, sem þykir lofa góðu.

Hjúkrunarfræðingarnir Þórunn Hanna Ragnarsdóttir og Edda Rún Kjartansdóttir skrifuðu lokaritgerð sína í hjúkrunarfræði um neyslurými. Þær hafa unnið sem sjálfboðaliðar hjá Frú Ragnheiði, verkefni á vegum Rauða krossins sem hefur lyft Grettistaki í þjónustu við fíkniefnaneytendur. Þar er boðið uppá hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti á sjúkdómum á borð við lifrarbólgu og HIV. Hjá Frú Ragnheiði er svo notuðum nálum fargað.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld var viðtal við hjúkrunarfræðingana. Þær bentu á nauðsyn þess að opna slík rými hér á landi. Fram kom, að dauðsföll vegna ofnotkunar fíkniefna í neyslurýmum þekkjast ekki. Þetta snýst ekki bara um mannúð því notkun slíkra neyslurýma dregur úr líkum á því að sprautufíklar þurfi á kostnaðarsamri heilbrigðisþjónustu að halda í framtíðinni.

SÁÁ og Rauði krossinn á Íslandi áætla að um 450-500 einstaklingar sprauti vímuefnum í æð reglulega hér á landi. Neyð þessa fólks er mikil.

Googleleit að umfjöllun um sprautunálar á Íslandi skilar 5.770 niðurstöðum. Oft er um að ræða fréttir um notaðar nálar sem finnast á víðavangi hér á landi - nær stöðugt umfjöllunarefni íslenskra fjölmiðla. Í neyslurými hafa sprautufíklarnir öruggt athvarf og nálum þeirra er fargað jafnóðum. Þannig losnar samfélagið við þá ógn sem notaðar sprautunálar á víðavangi eru forvitnum börnum, svo dæmi sé tekið.

Í fyrra létust 25 manns vegna efnaeitrana eða vímuefnaneyslu, oft við skelfilegar aðstæður. Stundum er um að ræða ungt og efnilegt fólk sem verður óvarlegu fikti að bráð. Sumt lendir á glæpabraut, í vændi eða innbrotum til að eiga fyrir næsta skammti. Glæpurinn er iðulega afleiðing en ekki orsök.

Okkur er öllum til hagsbóta að koma til móts við þarfir þessa fólks. Að minnsta kosti veita því öruggt húsaskjól og útvega því hreinar nálar. Það dregur úr ógæfu og sparar okkur peninga. Eftir hverju er beðið?


×