Innlent

For­setinn segir erjur um upp­runa Snorra og fisk ekki skyggja á vin­áttu Ís­lendinga og Norð­manna

Heimir Már Pétursson skrifar

Forseti íslands sagði í ræðu í hátíðarkvöldverði Haraldar fimmta Noregskonungs í gær að þjóðirnar tvær hefðu oft tekist á um fisk og uppruna skálda og annarra stórra sögulegra persóna, en alltaf gert það í bróðerni.

Guðni Th. Jóhannesson er fyrsti forseti Íslands til að koma í opinbera heimsókn til Noregs í tuttugu ár, eða frá því Ólafur Ragnar Grímsson fór þangað í heimsókn árið 1997. Ólafur V Noregskonungur og Sonja drottning buðu samkvæmt hefðinni forsetanum og Elísu Reid forsetafrú til hátíðarkvöldverðar í höll sinni í gærkvöldi, þar sem þjóðarleiðtogarnir fluttu skálræður þjóðum hvors annars til heilla.

Guðni rifjaði upp konugasögur Snorra Sturlusonar og Sturlu Þórðarsonar, en þjóðirnar hefðu oft tekist bróðurlega á um þjóðerni Snorra.

„Við verðum aldrei alveg sammála um allar hliðar sögu okkar og samtíð. Íslendingum og Norðmönnum þessum miklu vinaþjóðum hefur meira að segja tekist að eiga í deilum, auðvitað um fisk,“ sagði forsetinn og skálaði fyrir Haraldi, Sonju og norsku þjóðinni.

Guðni sagði þessar erjur ekki skyggja á vináttu þjóðanna sem ætti sér djúpar sögulegar rætur.

Haraldur V Noregskonungur sagði ánægjulegt að fá höfðinglega heimsókn frá Íslandinú þegar tuttugu ár væru síðan slík heimsókn hefði átt sér stað síðast.

„Þegar góðir vinir hittast tala þeir oft um gamla daga og við höfum margt til að tala um. Til dæmis hve mikilvægur sameiginlegur sagnaarfur okkar er. Þekkingin á norskri sögu væri mun minni án íslensku sagnanna,“ sagði Noregskonungur og skálaði fyrir forsetahjónunum og íslensku þjóðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×