Fastir pennar

Fólk ársins

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Þegar því er velt upp hvað stóð upp úr á árinu sem er að líða kemur ýmislegt til greina. Ísland komst á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í fyrsta skipti, við tók ný ríkisstjórn undir forystu ungrar og öflugrar konu, ferðamenn héldu áfram að sækja landið heim í milljónavís og skutu styrkari stoðum undir blómlegt efnahagslífið.

Verslunin í landinu tók stakkaskiptum. Útlendir risar eins og Costco gerbreyta örmarkaði eins og Ísland er. Um leið hafa æ fleiri náð tökum á að gera innkaup á netinu og fá varninginn sendan heim. Stóraukið álag á póstþjónustuna ber vott um breyttar neysluvenjur. Ísland er ekki lengur verslunareyland og neytendur beina viðskiptum sínum einfaldlega þangað sem best kjörin bjóðast. Neytendur verða því að teljast meðal sigurvegara ársins.

Viðskiptalífið hefur ekki farið varhluta af þessum breytingum og viðbrögð rótgróinna verslunarrisa bera vott um það. Hagar hyggjast kaupa Olís, og N1 og Festi,sem rekur meðal annars Krónuna, munu sameinast. Þá hefur Baskó, sem á 10-11 og Iceland búðirnar, tilkynnt um kaup á Eldum rétt. Allt eru þetta viðbrögð við æ harðari samkeppni um kúnnann.

Það er ekki bara í verslunargeiranum sem verið er að bregðast við breyttri heimsmynd. Kaup Vodafone á fjarskipta- og sjónvarpsrekstri 365 eru til marks um það og í samræmi við samþættingu sem er að eiga sér stað annars staðar í heiminum.

Árið var sömuleiðis eftirminnilegt á lista- og vísindasviðinu. Ragnar Kjartansson og Víkingur Heiðar Ólafsson vöktu athygli á heimsvísu og Kári Stefánsson hlaut eftirsótt verðlaun frá American Society of Human Genetics.

Einna markverðust var þó sú bylting sem átti sér stað undir merkjum #metoo. Konur, og önnur fórnarlömb kynferðisáreitis risu upp á árinu. Slík mál skulu ekki liggja í þagnargildi stundinni lengur. Þessi bylting hófst erlendis og felldi stór nöfn á borð við Harvey Weinstein og Kevin Spacey.

Fljótlega rak byltinguna hingað til lands eins og væringar í leikhúsum landsins og víðar bera vott um. Ísland hefur lengi verið í fararbroddi í jafnréttismálum. Við áttum fyrsta þjóðkjörna kvenforsetann, fyrsta opinberlega samkynhneigða forsætisráðherrann sem jafnframt var kona og státum nú af ungri, glæsilegri konu á forsætisráðherrastóli.

Því er alger tímaskekkja að enn eimi eftir af þöggun í kringum kynferðisofbeldi. Þær konur, og karlar þótt færri séu, sem hafa rutt brautina og dregið þessi mál fram í dagsljósið hljóta því að gera sterkt tilkall til að teljast fólk ársins.

En líklega eru það innflytjendur, útlent fólk sem sest hefur að á Íslandi um lengri eða skemmri tíma, sem marka dýpstu sporin. Við getum þakkað þeim að hjól samfélagsins á þessum uppgangstímum snúast liðlega, ekki síst á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum. Þar eru heilu vaktirnar mannaðar vinnufúsu fólki frá öllum heimsálfum.

Gleðilegt ár.


Tengdar fréttir

Við erum sakborningar

Einu sinni þótti í lagi að halda þræla. Einu sinni máttu konur ekki kjósa. Einu sinni var samkynhneigð dauðasök. Einu sinni var fólk brennt á báli fyrir galdra. Hinn alvitri samtími lítur í baksýnisspegilinn og hlær að glappaskotum tímanna sem komu á undan. Hvað var þetta lið að spá?


×