Viðskipti innlent

Heimilar kaup Stjörnugríss og Stjörnueggja á eignum Brúneggja

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Fasteignafélagið Gjáholt tók við rekstri Brúneggja í mars á þessu ári.
Fasteignafélagið Gjáholt tók við rekstri Brúneggja í mars á þessu ári. Vísir/Daníel Rúnarsson

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Stjörnugríss hf. og Stjörnueggja hf. á fasteignum og jörðum Gjáholts ehf., sem fyrr á árinu tók við rekstri Brúneggja.



Það er mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni á marköðum og leiði ekki til myndunar eða styrkingar á markaðsráðandi stöðu. Því séu ekki forsendur fyrir því að koma í veg fyrir samrunann.



Stjörnugrís starfrækir svínabú og sér um slátrun svína, vinnslu og sölu á slíkum afurðum. Stjörnuegg sinnir framleiðslu og sölu á eggjum.



Með samrunanum kaupir Stjörnugrís meðal annars svínahús að Brautarholti 10. Í sama húsnæði hefur fyrirtækið Höndlun ehf. leigu þar sem það starfrækir svínaeldi í samkeppni við Stjörnugrís.



Stjörnuegg kaupa síðan húsnæði sem hýsir núverandi eggjaframleiðslu Gjáholts að Stafholtsveggjum II og Brautarholti 5.



Eggjaframleiðandinn Brúnegg ehf. komst í fréttirnar í fyrra en fyrirtækið blekkti neytendur með því að auglýsa vistvæn egg. Í ljós kom að eggin voru ekki vistvæn og bjuggu hænur fyrirtækisins við slæman aðbúnað. Á sama tíma stóð fyrirtækið frammi fyrir vörslusviptingaraðgerð á vegum Matvælastofnunar á hænum í eigu fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×