Viðskipti erlent

Forstjóri Equifax hættir í kjölfar tölvuinnbrots

Kjartan Kjartansson skrifar
Fleiri stjórnendur hjá Equifax hafa verið látnir fara eftir gagnalekann.
Fleiri stjórnendur hjá Equifax hafa verið látnir fara eftir gagnalekann. Vísir/EPA
Bandaríska lánshæfisfyrirtækisins Equifax hefur tilkynnt að Richard Smith, forstjóri þess, ætli að stíga til hliðar. Greint var frá stórfelldum stuldi á persónuupplýsingum um viðskiptavini Equifax fyrr í þessum mánuði og hafa viðbrögð fyrirtækisins verið harðlega gagnrýnd.

Kennitölur, fæðingardagar og heimilisföng um 143 milljónir bandarískra viðskiptavina voru á meðal gagna sem tölvuþrjótar komust yfir þegar þeir brutust inn í tölvukerfi Equifax í sumar. Það er nærri því helmingur landsmanna.

Fyrirtækið greindi hins vegar ekki frá gagnalekanum fyrr en í þessum mánuði. Viðskiptavinir og þingmenn hafa gagnrýnt stjórnendur Equifax harðlega og hafa alríkisyfirvöld hafið rannsókn á viðbrögðum þeirra.

Þannig hefur verið greint frá því að æðstu stjórnendur Equifax hafi selt hlutabréf sín í fyrirtækinu í töluverðum mæli skömmu áður en greint var opinberlega frá tölvuinnbrotinu, að sögn Washington Post.

Þá kom einnig í ljós að fyrirtækið beindi viðskiptavinum sínum á ranga vefsíðu sem tölvuþrjótar höfðu sett upp og átti að líkjast síðu Equifax vegna gagnalekans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×