Innlent

Banna drónaflug og akstur bifreiða á Ljósanótt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Við setningu Ljósanætur árið 2015.
Við setningu Ljósanætur árið 2015. Mynd/Stöð 2

Allt leyfislaust flug dróna á og yfir hátíðarsvæðinu á Ljósanótt er algerlega bannað, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þá þykir ástæða til að banna allan akstur bifreiða um Hafnargötu í Reykjanesbæ meðan á hátíðinni stendur.



Ljósanótt í Reykjanesbæ verður haldin 31. ágúst og stendur yfir helgina fram til 3. september. Lögreglan á Suðurnesjum fundaði með öryggisnefnd Ljósanætur vegna hátíðarinnar og ræddi þar öryggismál.



Ítrekað er að allt leyfislaust drónaflug á og yfir hátíðarsvæðinu umræddar dagsetningar er algerlega bannað.



Þá er mat lögreglustjóra að allur akstur bifreiða innan um stóran hóp fótgangandi vegfarenda sé „mjög varhugaverður og kunni að stofna gangandi fólk í umtalsverða hættu.“ Akstur bifreiða, bæði stórra og smárra, um Hafnargötu í Reykjanesbæ verður því alfarið bannaður yfir hátíðina.



Einnig er mælt með að börn hafi símanúmer foreldra tiltæk en að sögn lögreglu hjálpar slíkt mikið þegar börn verða viðskila við foreldra eða aðra forsvarsmenn á hátíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×