Erlent

Tekjulisti BBC yfir hæstlaunuðu starfsmennina sýnir mikinn launamun kynjanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gary Lineker er einn best launaði starfsmaður BBC samkvæmt tekjulistanum.
Gary Lineker er einn best launaði starfsmaður BBC samkvæmt tekjulistanum. vísir/getty
Tekjulisti sem Breska ríkisútvarpinu, BBC, var gert að birta yfir hæstlaunuðu starfsmenn stofnunarinnar sýnir mikinn launamun kynjanna. Þannig er aðeins einn þriðji af þeim 96 starfsmönnum BBC sem eru á listanum konur og sjö efstu á listanum eru karlar.

Fjallað er um málið á vef Guardian en þar kemur fram að hæstlaunaði starfsmaður BBC er Chris Evans, þáttastjórnandi bílaþáttarins Top Gear en hann fékk 2,2 milljónir punda í laun á síðasta ári eða sem samsvarar um 300 milljónum króna á gengi dagsins í dag.

Gary Lineker, fyrrverandi knattspyrnumaður og þáttastjórnandi fótboltaþáttarins Match of the Day, er með 1,75 milljónir punda í árslaun.

Aðeins tvær konur með yfir 400 þúsund pund en tólf karlar

96 leikarar, þáttastjórnendur, fréttamenn og álitsgjafar sem fá meira en 150 þúsund pund í árslaun eru á listanum. BBC barðist gegn því að listinn yrði birtur, meðal annars vegna þess að hann myndi koma af stað launaskriði í fjölmiðlaheiminum, en ríkisstjórnin gerði stofnuninni að birta listann.

Eins og áður segir leiðir listinn í ljós mikinn launamun kynjanna hjá BBC. Aðeins tvær konur fá meira en 400 þúsund pund í laun hjá BBC, þær Claudia Winkleman sem stýrir þættinum Strictly Come Dancing, og Alex Jones, þáttastjórnandi One Show, en alls eru tólf karlmenn með meira en 400 þúsund pund í árslaun.

Laura Kuenssberg, ritstjóri stjórnmála hjá BBC, er með á milli 200 og 250 þúsund pund í árslaun, miðað við 300 til 350 þúsund punda árslaun Eddie Mair sem stýrir útvarpsþættinum PM.

Þá fær íþróttafréttamaðurinn Clare Balding 150 til 200 þúsund pund í árslaun, sem er um tíundi af launum Gary Lineker og lægra en íþróttafréttamennirnir John Inverdale og Jason Mohammad sem þéna meira en 200 þúsund pund og 250 þúsund pund á ári.

Nánar má lesa um málið á vef Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×