Innlent

Sprengja fannst í strætóskýli

Sæunn Gísladóttir skrifar
Lögreglan kom á vettvang til að fjarlægja sprenguna.
Lögreglan kom á vettvang til að fjarlægja sprenguna. Mynd/Hermann Örn Sigurðarson

Um sjöleytið í kvöld kallaði ungur maður eftir aðstoð lögreglu vegna þess að hann fann sprengju í strætóskýli við Hlíðarveg í Kópavogi.

„Ég fattaði ekki alveg fyrst hvað þetta var, ég tók þetta upp og hélt á þessu, þetta var mjög þungt svo sá ég þráðinn og þá lagði ég þetta frá mér aftur,“ segir Hermann Örn Sigurðarson sem búsettur er í götunni.

Sprengjan sem fannst. Mynd/Hermann Örn Sigurðarson

„Ég ákvað að hringja í lögregluna og láta þá vita af þessu. Ég beið hjá strætóskýlinu þangað til lögreglan kom sem var um rétt rúmlega sjöleytið og spurðu þeir mig út í þetta. Svo fór ég inn og þeir biðu hérna fyrir utan í um tuttugu mínútur, síðan kom sérsveitin og kíkti eitthvað á þetta. En hún fór svo aftur og þá kom sprengjusveitin ásamt sérsveitinni og þeir lokuðu götunni,“ segir Hermann. Götunni var því tímabundið lokað á meðan sprengjan var tekin. Hermann segir lögregluna ekki hafa upplýst sig frekar um málið í framhaldinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er talið að um rörasprengju hafi verið að ræða. Engan sakaði vegna málsins.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.