Innlent

Ferðast aftur hringinn í kringum landið til að vekja athygli á aðgengismálum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
"Og þó það verði það eina sem stendur eftir í minni forsetatíð þá skal það vera rampur hérna,“ segir Guðni Th Jóhannesson.
"Og þó það verði það eina sem stendur eftir í minni forsetatíð þá skal það vera rampur hérna,“ segir Guðni Th Jóhannesson.

Brandur Bjarnason Karlsson hefur lengi barist fyrir málefnum fatlaðs fólks. Fyrir um tveimur árum fór hann í hringferð um landið til að vekja athygli á aðgengismálum á landsbyggðinni. Í dag ákvað hann að endurtaka leikinn en hann lagði af stað í morgun ásamt nokkrum félögum sínum. Fyrsti áfangastaður Brands var á Bessastöðum þar sem Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands, tók vel á móti honum.

Brandur segist vona að búið sé að bæta úr aðgengismálum á landsbyggðinni. „Það var víðast hvar frekar slæmt aðgengi. Það er þessi hugmynd um að maður sér velkomin. Ef það eru rampar þá veit maður að það þarf ekki að kalla út fjóra einstaklinga til að halda á manni upp stiga,“ segir Brandur og bætir við að aðgengismál á Íslandi séu ekki nógu góð.

„Þetta eru náttúrulega mikið gömul hús og byggt á þeim tíma sem fólk var ekki mikið að hugsa um þetta. Kannski að einhverju leiti því á þeim tíma þá lifði fólk ekki af þau veikindi sem það lifir af í dag. Maður reynir að taka þessu ekki persónulega en þegar þetta gerist aftur og aftur og aftur og á ólíkum stöðum þá á endanum hættir maður að reyna og einangrar sig við bara við þessa örfáu staði þar sem maður veit að maður kemst inn. Þetta á það til að minnka soldið veröldina sem er aðgengileg fyrir manni,“ segir Brandur.

Í dag er ferðinni heitið á Vík í Mýrdal, svo á Egilstaði, á Akureyri, á Borganes og svo aftur til Reykjavíkur.

Aðgengi fyrir Brand á Bessastöðum var ekki uppá tíu og þótti Guðna það miður.

„Okkur vantar ramp til dæmis. Auðvitað getum við reddað okkur og gerum það en eins og Brandur sagði við mig það er eitt að segja við getum reddað þessu og svo er annað hér er rampur  og þið eruð velkomin. Og þó það verði það eina sem stendur eftir í minni forsetatíð þá skal það vera rampur hérna,“ segir Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands og bætir við að það sé heiður að fá að kveðja Brand fyrir reisuna í dag. „Þar sem rampinn vantar,“ segir Guðni.  Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.