„Það er sprenging þetta sumarið,“ segir Ragnar í samtali við Vísi. Það vantar ekki örtröðina. „Það hefur verið mikið en nú er þetta að springa upp í andlitið á okkur. Ég taldi mest 127 bíla og 11 rútur við Fjöruna. Á sama tíma.“
Stakkaskiptin sem orðið hafa á samfélagsgerðinni í Vík eru mikil. Halla Ólafsdóttir er framkvæmdastjóri Svörtu fjörunnar, sem er veitingastaður við Reynisfjöru, og hún segir að það sé fínt að gera hjá.
„Það er alltaf mikill mannfjöldi hér. Nú í lok júní. Áttum við ekki von á þessu? Ég held það,“ segir Halla og lýsir miklum breytingum sem orðið hafa á Vík í Mýrdal, hvar hún ólst upp; fædd og uppalin í Mýrdalnum. „Vík er ekki lengur litla þorpið okkar. Það er liðin tíð. Nú veit maður ekki einu sinni hverjir búa í Víkinni, eru starfandi hjá fyrirtækjum hér, tímabundnir verkamenn eða ferðafólk. Maður skýst ekki út í búð og reddar í matinn á fimm mínútum. Það er löngu liðin tíð. Nú er ekki auðn og tóm í búðinni af því að ekki eru viðskipti heldur af því að þau eru svo mikil og allt rifið út,“ segir Halla.
Bæði hafa þau orð á því að mikil þörf sé orðin á því að gerð sé bragarbót á aðstæðum við Reynisfjöru, þá í því sem snýr að bílastæðum. Ef einn leggur út í vegarkant þá leggur annar þar líka og þá er röðin fljót að myndast. Með tilheyrandi slysahættu.