Landssamband Veiðifélaga birti nýjar vikutölur úr laxveiðiánum í morgun og það er heldur sorglegt að sjá tölurnar úr sumum ánum.
Ytri Rangá heldur toppsætinu enda er veiðin þar búin að vera mögnuð frá opnun og er hún langaflahæst ánna með 2.549 laxa og vikuveiði uppá 829 laxa. Það er engu að síður orðið greinilegt að árið stefnir í að verða undir meðallagi víðast hvar að Rangánum undanskildum og ástæðan er sú að lítið af nýjum laxi eru að koma inn þrátt fyrir að stórstraumur sé í dag. Það má vel vera að það komi inn eitthvað slangur en reynslan sýnir að þegar svona langt er liðið á tímabilið eru sáralitlar líkur á stórum göngum í árnar.
Sumar árnar búa ágætlega að því að hafa fengið stórar göngur snemma sumars en það er samt skrítið fyrir veiðimenn að standa við bakkana og kasta á legna laxa og sjá varla lúsuga fiska lengur í ánum. Á þessum tíma eiga þeir að vera góður hluti af aflanum og takan að vera góð en það er bara ekki þannig. Veiðimenn lýsa þessu helst á þann veg eins og það sé verið að veiða árnar um miðjan ágúst en það er þekkt að takan dettur oft niður á því tímabili og þá sérstaklega á vesturlandi.
Takan á vesturlandi hefur verið afar döpur í mörgum ánum í vikunni samkvæmt fréttum frá veiðimönnum þrátt fyrir að flugum sé kastað á torfur í sumum hyljunum. Það er þó eitt gott í þessu þar sem ágætt magn af laxi er að finna að takan tekur venjulega góðan kipp síðsumars en miðað við tíðina er síðsumarsveiðin að koma svolítið snemma þetta árið.
Staðan á tíu efstu ánum er hér fyrir neðan en listann má finna í heild sinni hér.
Ytri Rangá 2549
Eystri Rangá 1633
Blanda 1492
Miðfjarðará 1459
Þverá/Kjarrá 1153
Norðurá 880
Haffjarðará 704
Langá 623
Laxá í Aðaldal 517
Víðidalsá 425
