Jól

Borða með góðri samvisku

Vera Einarsdóttir skrifar
Kettir, matur, bíómyndir og nammi lýsa jólum þeirra Linneu og Krumma.
Kettir, matur, bíómyndir og nammi lýsa jólum þeirra Linneu og Krumma. MYNDIR/ANTON
Krummi Björgvinsson og kærastan hans, Linnea Hellström, eru vegan. Linnea hefur að sögn Krumma verið fánaberi lífsstílsins í áraraðir. Sjálfur byrjaði hann að fikra sig áfram á vegan-brautinni fyrir tveimur árum en fór alla leið þegar hann kynntist Linneu.

Linnea segist alltaf hafa elskað dýr og haft andúð á hvers kyns undirokun. Hún ólst upp í námunda við dýr og náttúru í Dölunum í Svíþjóð og gerðist grænmetisæta ung að árum. Á unglingsárum fór hún að viða að sér frekari upplýsingum um næringu, dýraiðnað og umhverfisvernd sem styrkti hana enn frekar í að halda áfram á sömu braut.

Krummi segir að málstaðurinn hafi lengi verið sér kær. „Ég fór svo alla leið þegar ég kynntist Linneu. Hún hjálpaði mér að taka skrefið. Ég fékk loksins nóg af þessari sturluðu neysluhyggju okkar og hef ekki litið til baka.“ Þau Linnea og Krummi segjast reyna að fylgja lífsstílnum eftir bestu getu. „Ég myndi aldrei vísvitandi neyta nokkurs sem er unnið úr dýrum og dýraafurðum,“ segir Linnea sem, fyrir utan mat, er meðvituð um hvaðan föt, snyrtivörur og annað sem hún kaupir kemur. Hún segir í raun minna mál en fólk heldur að komast að því hvaðan hlutirnir koma. „Ef fólk gerði meira af því að kanna upprunann er ég sannfærð um að það myndi velja annað og gera meiri kröfur.“

Aðspurður segir Krummi ekki erfitt að vera vegan á jólunum. „Það er reyndar mjög gaman að prófa nýja hluti í matargerð á þessum árstíma. Að deila góðum mat með fjölskyldu og vinum án þess að lifandi skepnur séu pyntaðar og drepnar er mjög góð og gefandi tilfinning. Þá er frekar auðvelt að dreifa vegan-boðskapnum um jólin enda flestir opnir fyrir kærleika og hlýhug, tillitssemi og ábyrgð á þessum tíma.“

„Um leið er þetta tími hefða og mörgum finnst sér beinlínis ógnað ef það á að fara að hrófla við rótgrónum matarhefðum,“ segir Linnea. Hún hefur þó voða gaman af því að koma kjöt­ætum á óvart með grænmetistilbrigði við matinn sem þær telja sig ekki geta lifað án. Hún tekur undir það með Krumma að fólk sé móttækilegra fyrir samúð og góðvild í garð umheimsins í kringum jól. „Á hinn bóginn eru jólin mikil neysluhátíð og margir umhverfis­sinnar fá beinlínis illt í hjartað.“

Að sögn Krumma er Linnea afbragðskokkur. „Mér finnst gaman að gera grænmetisútgáfu af hefðbundnum kjötréttum, finna not fyrir hráefni sem er jafnvel sniðgengið og hent,“ segir Linnea, en það leiðir oft af sér óvænta og spennandi útkomu.

Uppskriftin sem þau Krummi deila er dæmigerð fyrir það, en hreindýraskaf er klassískur sænskur réttur sem er gjarnan borðaður á jólunum. Í staðinn fyrir hreindýr nota þau oumph sem er búið til úr sojabaunum. Það bera þau fram með brúnuðum Hasselback-kartöflum og krækiberjasultu en krækiber eru að sögn Linneu einhverra hluta vegna ekki notuð jafn mikið í matargerð og önnur ber þrátt fyrir að þau vaxi víða og séu bæði bragðgóð og næringarrík.

Þau Krummi og Linnea standa fyrir viðburðinum Cruelty Free Xmas ásamt góðum vinum á Gauknum sunnudaginn 18. desember klukkan 14. „Við vorum með sams konar viðburð í fyrra og ætlum að endurtaka leikinn í ár. Við verðum með fatamarkað og heimagerðan veganmat í bland við lifandi tónlist og eru allir velkomnir.“

Hefnd hreindýrsins

fyrir 4-6

Í þennan rétt er yfirleitt notað frosið hreindýrakjöt. Því er skipt út fyrir oumph sem er unnið úr sojabaunum.

Hreindýrakássa

2 pakkar oumph – pure chunk (560 g)

250 g sveppir

1 laukur

½ hvítlaukur

5 dl jurtarjómi (soja, kókos, möndlu, hafra, hrísgrjóna)

3 dl grænmetissoð

2 msk. sojasósa

2 msk. Dijon-sinnep

Nokkur einiber

1 msk. krækiberjasulta

Nokkur lárviðarlauf

Ferskt rósmarín

Ferskt timían

Hvítur pipar og sjávarsalt

Skerið oumphið frosið í þunnar sneiðar með mandólíni eða beittum hnífi. Það er líka hægt að brjóta það í litla bita. Saxið og steikið lauk, hvítlauk, sveppi og síðan oumph í olíu í stórum potti í nokkrar mínútur. Bætið öllu nema ferska kryddinu við og hitið að suðu. Látið krauma undir loki í 15 mínútur þar til þykknar. Smakkið til með fersku kryddi.

Hasselback-kartöflur

Þetta eru klassískar sænskar kartöflur. Þær eru toppaðar með brúnuðum heslihnetum og fá þannig íslenskan blæ.

20 meðalstórar kartöflur

U.þ.b. 100 g vegan smjör/smjörlíki (fæst í Krónunni eða Earth Balance)

U.þ.b. 200 g rasp

U.þ.b. 50 g púðursykur

U.þ.b. 10 g sjávarsalt

100 heslihnetur

Skerið djúpar rifur í kartöflurnar. Komið þeim fyrir í pappírsklæddu ofnföstu móti. Setjið svolítið smjör ofan á hverja kartöflu fyrir sig. Bakið við 220 gráður í 25 mínútur. Takið fatið út og bætið við smjöri og sjávarsalti. Sáldrið síðan raspi yfir hverja kartöflu fyrir sig. Bakið í 20 mínútur til viðbótar eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar að utan og mjúkar að innan. Saxið og þurr­ristið heslihneturnar á pönnu. Lækkið hitann þegar þær hafa brúnast. Bætið við matskeið af smjöri og sykri. Hrærið saman og látið brúnast. Dreifið yfir kartöflurnar áður en þær eru bornar fram.

Krækiberjasulta

3 dl krækiber

3 dl sykur

1 msk. sítrónusafi

1 msk. ávaxtapektín

Stappið krækiberin, hellið í pott. Bætið ávaxtapektíni (fruit pectin) og sítrónusafa við og hitið að suðu. Hrærið í á meðan. Bætið sykri við og sjóðið við háan hita í fimm mínútur. Fjarlægið froðuna af yfirborðinu og hellið í sultukrukkur. Eins er hægt að sía sultuna og búa til hlaup.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.