Veiði

Stefnir í algjöra örtröð á hreindýrslóð

Jakob Bjarnar skrifar
Hefðbundin trófí-mynd, Mikael felldi vænan tarf fyrir austan í síðustu viku. Og var mikið fyrir þeirri bráð haft.
Hefðbundin trófí-mynd, Mikael felldi vænan tarf fyrir austan í síðustu viku. Og var mikið fyrir þeirri bráð haft. visir/jbg
Vísir ræddi við Jóhann G. Gunnarsson, starfsmann umhverfisstofnunar á Egilsstöðum, en hann hefur umsjá með hreindýraveiðum, á sunnudag, eða 28. ágúst, en þá var staðan sú að búið er að fella um 550 hreindýr. Það er mjög lítið miðað við hversu mörg dýr stendur til að veiða og hefur Jóhann nokkrar áhyggjur af stöðu mála.

„Það verður að teljast lítið miðað við það að kvótinn er stór en alls á að fella 1300 dýr og þar af 1165 nú á hefðbundnum veiðitíma sem líkur þann þann 20. september. Og reyndar lýkur tarfaveiðum 15 september. Eins og áður hefur verið sagt þá þarf allt að ganga upp ef menn eiga að ná sínum dýrum. Veðrið hefur verið óhagstætt núna seinustu daga eftir langan góðan kafla þar á undan. Menn virðast kjósa það að fara seint til veiða og þess vegna verður oft mikil örtröð á veiðislóð seinustu vikurnar. Oft er þokusælla í september og úrkoma meiri. Dýrin eru væn og búið er að fella töluvert af hornprúðum törfum.“

Jóhann sjálfur var með hreinkýr á svæði eitt og sótti hann hana, ásamt með bróður sínum Skúla Birni Gunnarssyni forstöðumanns Skriðuklausturs, sem einnig var með leyfi. Sjá nánar hér.

 

Bræðurnir Jóhann Guttormur og Skúli Björn Gunnarssynir náðu að veiða sínar kýr í síðustu viku.
Blaðamaður Vísis fór á hreindýraveiðar í síðustu viku ásamt Mikael Torfasyni rithöfundi. Þeir náðu að fella tvo tarfa, eins og til stóð. En það var mikið fyrir því haft, gengið marga kílómetra, skriðið yfir mela og egghvasst grjótið til að ná færi á risastórri hjörð skammt frá Jökuldal. Blaðamaðurinn örmagnaðist en rithöfundurinn var kátur og hann lýsir stóru stundinni svona, á er hann felldi vænan tarf sem reyndist 102 kíló:

„Ég náði að hlaupa almennilega fram fyrir hjörðina eftir að þú lagðist alveg niður, Jakob minn. Það verður bara að segjast eins og er. Enda fékk ég engar harðsperrur daginn eftir (eins og sumir) en ég var með hælsæri. Það er það eina. Það var ótrúleg tilfinning að ná í sigtið tarfi sem var búinn að fella af hornunum. Hann var með rauð horn. Kobbi frændi þinn [leiðsögumaður] hafði sagt mér að það væru stærstu tarfarnir. Ég var því alveg ótrúlega feginn þegar ég fékk einn slíkan í færi. Sem var ekki sjálfgefið því dýrin voru á hlaupum,“ segir Mikael -- stoltur skotveiðimaður.

Nánar er greint frá þeirri miklu reisu á hreindýraslóð á veiðivefnum Gripdeild, sem er í samstarfi við Vísi um veiðiumfjöllun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.