Innlent

Maðurinn sem lenti í umferðarslysi við Borg er látinn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Maðurinn ók fólksbíl sem lenti saman við jeppling á Biskupstungubraut.
Maðurinn ók fólksbíl sem lenti saman við jeppling á Biskupstungubraut.
Karlmaður sem var fluttur alvarlega slasaður á slysadeild eftir bílslys á Biskupstungnabraut er látinn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi. Hann var ökumaður fólksbíls sem lenti saman við jeppling skammt austan af Borg í Grímsnesi. Tilkynnt var um slysið klukkan 13.57 í dag.

Erlend hjón sem voru á ferðalagi voru í jepplingnum og voru flutt með sjúkrabíl á heilsugæslustöðina á Selfossi til skoðunar en þaðan voru þau flutt á slysadeild Landspítala. Þau eru ekki talin alvarlega slösuð. Þau eru enn á sjúkrahúsinu undir eftirliti.

Samkvæmt upplýsingum á vef lögreglunnar hófu vegfarendur, meðal annars ökumaður og farþegi hinnar bifreiðarinnar, endurlífgunartilraunir á vettvangi sem var svo fram haldið á leið á sjúkrahús af sjúkraliði. Þær tilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn fljótlega eftir komu þangað.

Ekki liggur fyrir hver aðdragandi slyssins var en til viðbótar við lögreglu er rannsóknarnefnd samgönguslysa með málið til rannsóknar. Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi fer með rannsókn málsins og nýtur við það aðstoðar bíltæknifræðings.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×