Glamour

„Fiðrildið gengur viljandi á ljósastaur til að sanna fyrir ókunnugum að það er sveimhugi“

Ritstjórn skrifar
Teikning/Rakel Tómas
Pistillinn birtist fyrst í sjötta tölublaði Glamour, en Tyrfingur er fastur pistlahöfundur hjá tímaritinu. Hann starfar sem leikskáld Borgarleikhússins og fékk Grímuverðlaun og glimrandi dóma fyrir verk sitt Bláskjá. Tyrfingur vinnur nú að sínu öðru verki fyrir Borgarleikhúsið, Auglýsingu ársins, sem verður sýnt á næsta ári.

Fiðrildið

Lesandi spyr: „En Tyrfingur, hver er þá eiginlega munurinn á fúskara og fiðrildi?“

Takk, kæri Lesandi, fyrir óvenju gáfulega spurningu.

Í grófum dráttum prumpar fúskarinn oftar en hann þarf á meðan fiðrildið byrgir allan fret inni. Þegar fiðrildið loks rekur við, er lyktin kemísk eða klínísk og þurr og hörð og ljóst að fiðrildið er orðið nokkuð lasið.

Fúskarinn fer í vinsælt bakarí, pantar sér kjötsnúða og Langa Jón og tyllir sér í sætin næst klósettunum og fylgist með hversu lengi fólk situr á „dollunni“, fullviss um að allir séu annaðhvort að fróa sér eða bruðla með handsápuna. Á öðrum stað í sama bakaríi situr fiðrildið teinrétt, nartar í skyr og veit nákvæmlega hvað fúskarinn er að fúska, dauðlangar til að herma eftir honum en neitar sér um það, enda lítur fiðrildið á sjálft sig sem „ótrúlega flókinn persónuleika“. En fiðrildið er einfalt og manngerðina má þekkja á nokkrum atriðum sem ég tel nú upp.

1. Fiðrildið hefur alvarlega íhugað það að ganga með snuð og útskýra það svo: „Vitiði, þetta slær bara svo á kvíðann minn.“

2. Fiðrildið gengur viljandi á ljósastaur til að sanna fyrir ókunnugum að það er sveimhugi.

3. Fiðrildið þráir að spila í óaðgengilegri en heimsfrægri hljómsveit.

4. Fiðrildinu þykir allt fólk af asísku bergi brotið krúttlegt og viturt en finnur til með því.

5. Fiðrildið er of sérhlífið til að þróa með sér almennilegan fíknisjúkdóm eða rymjandi persónuleikaröskun. Það öfundar þunglynda af húðlit þeirra.

6. Fiðrildið vildi óska þess að tærnar á því væru sætari.

7. Matarleg og kynóð fiðrildi eru mun geðugri en almenn fiðrildi enda laus við montið sem fylgir því að hafa stjórn á öllu mögulegu. Ekkert er eins gróteskt og gratt eða víðáttufeitt fiðrildi. Ekkert er eins þreytandi og fiðrildi í góðu skapi, nema ef vera skyldi fiðrildi í vondu skapi.

8. Fiðrildið langar að sjálfsögðu í apa.

9. Fiðrildið býr til og æfir eigin hlátur. Fiðrildið telur sig hafa skapað hinn víðfræga „dillandi hlátur“ en óhljóðin sem upp úr því vella minna á móðursýki og köfnun.

10. Öldruð og umhyggjusöm flugfreyja hjá Germanwings í þröngri buxnadragt og kúrekastígvélum með mikið notaðan munn gæti aldrei verið fiðrildi. Fiðrildin endast nefnilega ekki í umönnunarstörfum eða þjónustu, því þau eru að upplagi kaldlynd og áhugalaus um sorgir annarra, þótt þau séu svona tilfinningasöm.

11. Fiðrildið kann hrafl í frönsku, elskar að vera berfætt og tilbiður gamlar ljósakrónur.

12. Fiðrildi á kaffihúsi talar eins og fólkið á næsta borði liggi á hleri.

13. Fiðrildið er annaðhvort andlegt eða sinnir undarlegri íþrótt af kappi. Komist fiðrildið í stöðu yfirmanns gæti það fyrir hádegi níðst á undirmanni sínum eða svívirt en eftir hádegi boðað sama undirmann á fund, lokað dyrunum að skrifstofunni og farið að gráta.

14. Fiðrildið ýkir eða gerir sér upp innskeifu og þvingar sig til að ganga hjólbeinótt.

15. Fiðrildið lifir fyrir allt sem er retró og „skapar nostalgíu sakleysis fyrri tíma“ en þegar öllu er á botninn hvolft er það bara ósköp venjulegur antíkunnandi.

16. Fiðrildið deplar augunum oftar en það þarf.

17. Þjóðarsvipur fiðrildanna er hrifningarsvipur en fiðrildið þykist stórhrifið af alls konar drasli. Einu sinni var ég í hópi fiðrilda og þá fann eitt þeirra skeifu undan hrossi og fór að gráta af hrifningu. Hin fiðrildin urðu eins og kvalin dýr í framan af öfund og bræði því auðvitað og að sjálfsögðu sjá fiðrildi í gegnum önnur fiðrildi.

18. Ef fiðrildið sér ókunnuga móður fá synjun á greiðslukortið fyllist það viðbjóði og ógurlegri vorkunn. Fái það sjálft synjun upplifir það sig sem sætan kjána og kennir kapítalismanum um.

19. Ef hópur fólks þráttar segir fiðrildið: „Hættið að rífast! Þið eigið að vera fyrirmyndir okkar sem yngri erum!“ – Samt er þetta tiltekna fiðrildi alveg 28 ára.

20. Fiðrildið höfðar fyrst til samvisku fólks en ekki til skynsemi eða vitsmuna. Þannig gæti það sagt: „Ef þú keyrir mig ekki út í búð núna þá á ég engan mat í kvöld.“

21. Fiðrildið á stundum erfitt með að orða hlutina því það „er svo djúpt og einlægt“.

22. Geri fiðrildið listaverk fjallar það um hve erfitt, flókið en ótrúlegt það sé að vera listamaður. Fiðrildið gerist gjarnan listamaður enda gengur það fyrir holu hrósi.

23. Fiðrildið daðrar við allt sem hreyfist, þar með talið dýr (sérstaklega hunda og geld hross) og börn. Þetta er undurfurðulegt að sjá og daðursáráttan ágerist eftir því sem fiðrildið eldist.

24. Fiðrildið er alltaf utan við sig, hnerrar á sætan hátt (hvellt tíst), dauðbregður við hið minnsta og hrekkur daglega í kút.

Langi fúskarann „í rottuna á þessu fiðrildi þarna með skyrið“ beitir hann kænsku og segir: „Vá, hvað þú ert spes persónuleiki. Og þú lítur út fyrir að vera tólf!“ 


Nýtt Glamour er komið í allar helstu verslanir - tryggðu þér eintak!
Fylgstu með Glamour á Instagram og á Facebook.





×