Skoðun

Ómetanleg heilsa

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Nú hefur fyrsta skóflustungan verið tekin að nýju sjúkrahóteli sem á að rísa við Hringbraut. Þessar framkvæmdir hafa fengið misgóðar undirtektir og þá sérstaklega hvað varðar staðsetninguna. Með þessum framkvæmdum er verið að beina þyngstu umferð Reykjavíkur á einn miðpunkt. En það er ekki einungis staðsetningin sem þykir óhentug. Það er einnig að núverandi húsnæði spítalans er orðið úrelt og hefur myglusveppur fundist á hinum ýmsu stöðum innan veggja spítalans.

Þegar úti rignir eru settar fötur á víð og dreif um ganga spítalans til þess að grípa lekandi vatnsdropana og hafa myndir verið birtar af þessu á samfélagsmiðlinum Facebook. En ekki hafa öll álitamál húsnæðisins komist í kastljósið.

Sem dæmi má nefna lyftukost spítalans. Lyfturnar eiga það til að stöðvast á milli hæða en fara yfirleitt aftur af stað ef takkanum er haldið inni í smá tíma. Einnig eru sumar lyftuhurðirnar bilaðar og þarf því að halda þeim opnum á meðan rúmin eru keyrð út úr lyftunni en þær stöðvast ekki alltaf á jafnsléttu.

Hjarta- og lungnaskurðdeildin var upprunalega barnadeild þannig að herbergin eru með minna sniði. Það þýðir að á sumum tveggja manna herbergjum deildarinnar er ekki hægt að fara með innra rúmið út án þess að færa hið fremra upp á rönd. Þetta skapar aukna vinnu og óþægindi fyrir sjúklinga og starfsmenn þar sem sumir þurfa að fara í röð rannsókna sama daginn.

Baðherbergin eru oft mjög lítil og inni á sumum er ekki einu sinni rými fyrir starfsmenn að fylgja sjúklingum alla leið inn á herbergið. Ekki er pláss fyrir auka manneskju og hvað þá hjólastól. En nýi spítalinn á að laga þetta. Eða hvað?

Niðurstaðan er sú að til þess að hægt sé að reka grunnheilbrigðisþjónustu þarf spítalinn raunhæf fjárlög. Viðhald á svona gömlum byggingum er mjög dýrt og ekki má gleyma að þjóðin er að eldast og að fleiri þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda á hverju ári. Þegar upp er staðið þá skiptir heilsan öllu. Ég vona að fjárlaganefnd Alþingis veiti viðeigandi fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar því að heilsan, hún er ómetanleg.




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×