Veiði

Nóg af laxi í Korpu

Karl Lúðvíksson skrifar
Korpa eða Úlfarsá hefur verið að gefa feyknagóða veiði síðustu daga og veiðimenn við bakkana segja nóg af fiski í henni.

Áin er aðeins veidd á tvær stangir og hefur veiðin í henni verið að meðaltali um 300 laxar á ári á þær tvær stangir sem veiða hana. Halldór Gunnarsson var að koma úr ánni þar sem hann gerði virkilega fína veiði. Hann sendi okkur smá pistil sem hér fer eftir.

"Áttum virkilega góðan dag í Úlfarsá ( Korpu ) í gær og er óhætt að segja að þessi litla á sé á svipuðu róli og aðrar laxveiðiár núna, nóg af laxi og fín tökugleði. Vorum með eina stöng og í lok dags höfðum við sett í 16 laxa á ýmsum stöðum í ánni, en einungis náðum við að koma 5 á land. Aðrir náðu að rífa sig lausa eftir skemmtilegar viðureignir.

Við byrjuðum á klassískum stað, Stíflunni, en gáfumst fljótt upp á að vera þar, en þó eftir að hafa náð að landa einum. Eftir það fórum við niður á við og gengum hyl í hyl og var svo mikið af laxi í mörgum hyljum að áin var hreinlega stífluð - þeir skiptu tugum. Við settum í laxa á öllum svæðum frá stíflu og allt niður í Sjávarfoss.

Allir laxar hjá okkur komu á flugur, og mest er notað litlar #12 ~ 18 flugur.

Passa verður þó að þegar gengið er um svæðið að læðast að hyljum því áin er hæg og tær og sér fiskurinn veiðimanninn strax ef ekki er varlega farið. Við það kemur styggð í fiskinn og hann líklegri en ekki til að neita að taka. Korpan er komin yfir það magn sem allt síðasta ár gaf, og það má því segja að þeir sem eiga dag í Korpunni á næstunni eigi von á veislu".

Við viljum endilega heyra frá veiðimönnum við bakkana í sumar. Þið getið sent okkur póst á kalli@365.is og sagt okkur frá ykkar veiðiferð og deilt með lesendum myndum og veiðiferðunum ykkar.  Tight lines!


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.