Erlent

Aftökusveitir hugsanlega endurvaktar í Utah

Samúel Karl Ólason skrifar
Ronnie Lee Garnder var skotinn til bana í þessum stól í Utah árið 2010.
Ronnie Lee Garnder var skotinn til bana í þessum stól í Utah árið 2010. Vísir/EPA
Breytingar hafa verið gerðar á lögum Utah í Bandaríkjunum sem heimila notkun aftökusveita. Ríkið er það eina í Bandaríkjunum sem hefur tekið fanga af lífi með aftökusveit á síðustu 40 árum. Undanfarin misseri hefur reynst erfitt að útvega þau lyf sem hafa verið notuð til að taka fanga af lífi og skortur er í landinu.

Aftökusveitunum er ætlað koma til móts við þann skort. Verði ekki hægt að útvega lyfin, verða fangar því skotnir til bana, taki nýju lögin gildi.

Ríkisstjóri Utah hefur ekki sagt til um hvort hann muni samþykja lögin eða beita neitunarvaldi sínu, samkvæmt AP fréttaveitunni. Repúblikanar stjórna þingi ríkisins og ríkisstjórinn Gary Herbert, er einnig Repúblikani.

Samþykki hann lögin, verður Utah eina ríkið í Bandaríkjunum sem leyfi aftökur með aftökusveitum. Samskonar frumvarp hefur þó verið sett fram í Arkansas. Þá var samskonar frumvarpi hafnað í Wyoming. Flutningsmaður frumvarpsins, Paul Ray, segir að lögin myndu einungis veita ríkinu valkosti.

„Við myndum vilja fá banvænu sprauturnar í lag, svo við gætum haldið áfram að nota þær. Ef ekki, þá höfum við að minnsta kosti varaáætlun.“

Síðast var fangi tekinn af lífi með aftökusveit í Utah árið 2010. Alls hafa þrjár slíkar aftökur farið fram frá árinu 1976, þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfði dauðarefsingar á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×