Erlent

Þúsundir minnast Nemtsov í Moskvu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Frá mótmælunum í Moskvu í dag.
Frá mótmælunum í Moskvu í dag. Vísir/AP

Boris Nemtsov, sem var skotinn til bana á brú nálægt Kremlin og Rauða Torginu í Moskvu á föstudag, var merkur rússneskur stjórnmálamaður, stærðfræðingur og eðlisfræðingur.

Þúsundir mótmælenda eru nú saman komnir í Moskvu til að mótmæla en um leið minnast Nemtsov sem var frjálslyndur stjórnmálamaður og harður gagnrýnandi Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Nemtsov var myrtur þegar hann var að undirbúa mótmælasamkomu þar sem gagnrýna átti stefnu Pútíns í austurhluta Úkraínu og fjármálakrísuna í Rússlandi vegna hruns rúblunnar.

Í frétt Financial Times kemur fram að Pútín hafi sent móður Nemtsov samúðarskeyti þar sem fram komi að Nemtsov hafi skráð nafn sitt á spjöld sögunnar í Rússlandi með framgöngu sinni í stjórnmálum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sem um tíma stundaði skiptinám í Plekhanov-háskóla í Moskvu meðan hann var í viðskiptafræðinámi, syrgir Borís Nemtsov á Facebook og segir að sér hafi brugðið að heyra um morðið.

Hann segist hafa fylgst með Nemtsov í meira en tuttugu ár og segist hafa verið mikill aðdáandi hans á tíunda áratugnum. Nemtsov hafi verið einstakur prinsippmaður sem lét aldrei hærða sig frá því að lýsa skoðun sinni og vekja umræðu um mál sem aðrir töldu að ekki mætti ræða.

Sigmundur Davíð upplýsir jafnframt að hann hafi skrifað Nemtsov bréf og kannað hvort hann gæti hugsað sér að koma til Íslands og halda fyrirlestur. Forsætisráðherra segist vonast til þess að þessi sorglegi atburður verði til þess að vekja athygli á mikilvægi frjálslyndis, friðar og frelsis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×