Innlent

Nýr formaður Landsbjargar: Konur með mikil áhrif þó þær sitji ekki í stjórn

Atli Ísleifsson skrifar
Ný stjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem kosin var á landsþingi um síðustu helgi.
Ný stjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem kosin var á landsþingi um síðustu helgi. Mynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg
„Það voru konur í framboði til stjórnar og kona í framboði til formanns, en þetta er niðurstaðan og við vinnum úr því sem við höfum,“ segir Smári Sigurðsson, nýr formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Átta manns tóku sæti í stjórn félagsins á landsþinginu sem fram fór á Ísafirði um síðastliðna helgi - allt karlar.

Smári segir að það hefði verið vænlegri kostur ef þetta hefði verið á annan veg, en að þetta sé niðurstaðan. „Þingið kaus þetta. Ég get alveg tekið undir að það hefði verið betra að hafa stöðuna öðruvísi en þetta er afar öflugt fólk sem kemur inn. Það má ekki lasta það.

Það voru mun fleiri karlar sem gáfu kost á sér en konur. Það voru sautján framboð til stjórnar og formanns og þar af voru þrjár konur. Í þessum félögum eru fjöldinn allur af konum en þær hafa færri gefið kost á sér til stjórnunarstarfa.

Konur hafa þó hellings áhrif í þessum félögum þó þær sitji ekki í stjórninni. Þannig skipar stjórnin fjölda nefnda sem eru henni til ráðgjafar í alls konar málum - slysavarnarmálum, aðgerðamálum, fjarskiptamálum og fleira. Auðvitað leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar til að fá konur inn í þessar nefndir. Innan félagsins eru fullt af öflugum konum og nú þurfum við að vinna að því að draga þær að borðinu.“

Smári Sigurðsson var kjörinn formaður með 92 atkvæðum, en mótframbjóðandi hans, Margrét L. Laxdal, hlaut 89 atkvæði.Mynd/Landsbjörg
Spenntur og bjartsýnn

Rúmlega sex hundruð sjálfboðaliðar slysavarnadeilda og björgunarsveita frá öllu landinu sátu landsþingið, þar sem Smári var kjörinn formaður með 92 atkvæðum, en mótframbjóðandi hans, Margrét L. Laxdal, hlaut 89 atkvæði.

Smári segir formennskuna leggjast vel í sig. „Ég hefði að sjálfsögðu ekki sóst eftir þessu ef ég hefði ekki vitað að hverju ég gengi. Ég hef áður setið í stjórn þannig að ég þekki þetta vel. Ég er mjög spenntur og bjartsýnn og með öflugan hóp með mér.“

Smári segist hafa verið í um fjörutíu ár í björgunarsveit, fyrst í Hjálparsveit skáta og svo Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri eftir að flugbjörgunarsveitin og hjálparsveit skáta voru sameinaðar. Hafi hann verið mjög virkur í starfinu eftir að hann varð „fullorðinn“.

Aukin áhersla á forvarnastarf

Smári segir að félagið vilji meðal annars beina auknu kastljósi á forvarnar- og slysavarnamál. „Ekki síst í ljósi þess að útköllum hafi fjölgað síðustu ár, meðal annars vegna aukinnar umferðar erlendra ferðamanna. Samfélagið er sömuleiðis ekki nógu vel upplýst um kenjarnar okkar, og veðurfar og aðstæður.

Það er því ekki vanþörf á að leggja meira í upplýsingar og fræðslu til að hindra og forða frekari útköllum í þessum ferðamannageira og svo kannski að fá þjóðina til að vera ábyrgari í sinni hegðun og menn taki ábyrgð á sjálfum sér. Þá er ég meðal annars að vísa í að fólk taki saman trampólínin áður en fyrsta haustlægðin kemur og hugsi sinn gang áður en það leggur á heiðina ef upplýsingar liggja fyrir um að hún sé ófær og spáin vond.“

Dívurnar frá Slysavarnadeildinni á Akureyri og Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri unnu Björgunarleikana.Mynd/Landsbjörg
Vilja opna umræðu

Smári segir að einnig vilji félagsmenn opna umræðu um hvernig samfélagið vilji sjá björgunarmál þróast, hvernig við viljum hafa þennan málaflokk – leit og björgun. „Hvernig sér þjóðin þetta fyrir sér? Auðvitað stöndum við samt vaktina og það er enginn bilbugur á okkur að standa þessa vakt. Ég er þó ekki í vafa um að við gætum sleppt fullt af útköllum ef við upplýsum ferðafólk betur, merktum veginn betur og að við landarnir tækjum meiri ábyrgð á okkur sjálfum.“

Uppskeruhátíð björgunarsveitarmanna

Nýi formaðurinn segir þingið á Ísafirði hafa verið afskaplega skemmtilegt. „Þetta er um leið nokkurs konar uppskeruhátið – hátíð fyrir þetta björgunarfólk sem kemur saman og keppir meðal annars í Björgunarleikum sem setur svip sinn á bæinn með mikilli stemningu. Við, þessi sem eldri eru, erum kannski meira í félagsmálunum og ræða alvöruna. Svo sameinumst við aftur um kvöldið í veglegri árshátíð og þar er ekkert kynslóðabil.

Gaman er að geta þess að í þessum Björgunarleikum, þar vann kvennalið. Það var kannski svar dagsins, að konur fengu ekki brautargengi í pólitíkinni, en svo þar sem þurfti að taka á því þar kom kvennalið og rúllaði þessu upp.“

Skrifstofugarðyrkjumaður

Smári er garðyrkjumaður og starfar dags daglega sem framkvæmdastjóri kirkjugarða Akureyrar. „Ég er eiginlega orðinn svona skrifstofugarðyrkjumaður. Að vera í forsvari fyrir félagið er sama sjálfboðaliðastarfið eins og að vera björgunarsveitarmaður. Það fara sumarfrísdagarnir mínir í þetta og kallar á breyttar áherslur í frítímanum. Ég hef þó stuðning og velvilja míns vinnuveitanda, en ég þarf þó áfram að sinna minni vinnuskyldu. Það er enginn afsláttur af því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×