Jól

Vestfirskar hveitikökur og metnaðarfullar skreytingar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Baldur Trausti bakar alltaf hveitikökur og Sörur fyrir jólin.
Baldur Trausti bakar alltaf hveitikökur og Sörur fyrir jólin. vísir/vilhelm

Það fer ekkert að gerast í jólaundirbúningi fyrr en ég og dóttir mín erum búin að baka hveitikökurnar. Þetta er vestfirskt fyrirbæri og hafa þessar kökur fylgt jólunum frá því að ég man eftir mér. Þær eru bakaðar á aðventunni og svo teknar upp á Þorláksmessu og borðaðar með hangikjötinu,“ segir Baldur Trausti.

Hann er þessa dagana að æfa fyrir Sjálfstætt fólk sem frumsýnt verður um jólin í Þjóðleikhúsinu og leikur í Konunni við 1000 gráður. Það hefur þó engin áhrif á jólabaksturinn. 

Hveitikökubakstur er vestfirsk hefð en uppskriftina að Sörunum fékk Baldur hjá starfsfélaga í leikhúsinu. fréttablaðið/vilhelm

„Ég gef mér tíma til að baka. Við dóttir mín stöndum í bakstrinum, svo kemur restin og borðar þetta. Hveitikökurnar passa með öllum mat, skötustöppu, hangikjöti, með afgöngum af hamborgarhryggnum og eru æðislegar með rauðbeðusalati. Við kaupum ekkert brauð yfir hátíðirnar heldur borðum allt með þessu.“

Baldur Trausti hefur síðastliðin sextán ár bakað Sörur á aðventunni eftir uppskrift sem hann fékk frá Guðrúnu Erlu Sigurbjarnadóttur, starfsfélaga í Þjóðleikhúsinu.

„Ég hef aðeins þróað stærðina, því ég vil hafa þær svona þrjá munnbita, og svo hef ég möndlurnar grófar í botnunum því ég vil hafa botninn grófan,“ segir Baldur og bætir við að fyrstu árin hafi hann verið svolítið nískur á Sörurnar. 

„Einhvern tímann sá ég síðan að frystikistan var full af Sörum um páska því ég hafði verið svo sparsamur. Eftir það er ég slakari og er á því að maður eigi að borða þær á aðventunni enda nóg annað að borða yfir jólin.“


Hveitikökur

 • 7-8 kökur
 • 3 bollar hveiti
 • 3 tsk. lyftiduft 
 • 1 tsk. salt 
 • 1 msk. sykur 
 • 2,5 dl mjólk 
 • 2,5 dl rjómi 

Hnoðað saman í hrærivél. Búin til pylsa og skorið í 7-8 kökur. Flatt út með kökukefli. Stinga í hverja köku með gaffli. Steikt á pönnu, helst þykkbotna og eldgamalli. Bakað við meðalhita. 


Sörur

 • Botn
 • 5 eggjahvítur
 • 6 dl flórsykur
 • 400 g möndlur 

Eggjahvítur stífþeyttar í tíu mínútur. Flórsykri og möndlum bætt við og hrært vel, en hægt og rólega. 

Möndlur ekki maukaðar heldur rétt brotnar í höndunum. Ríflega sett í teskeið og á plötu og bakað við 180 gráður í 10-15 mínútur. 

 • Krem
 • ½ dl sykur
 • ½ dl vatn 
 • 5 eggjarauður
 • 300 g smjör 
 • 2 msk. kakó 
 • 2½ tsk. kaffiduft
 • 1 msk. Swiss Miss 

Sykur og vatn soðið saman í 10-15 mínútur við vægan hita og svo látið kólna vel. 

Eggjarauður stífþeyttar og vatninu svo hellt varlega saman við í mjórri bunu. Smjöri, kakó, kaffidufti og Swiss Miss bætt við. Þeytt saman. 

Smurt á botninn á kökunum. Sett í frysti og látið bíða í einn dag. 


Tengdar fréttir

Hentugt fyrir litla putta

Þórdís Elva ­Þorvaldsdóttir skreytir piparkökur árlega ásamt fjölskyldu mannsins síns í Grindavík.

Heimilið undirlagt eftir tíu daga bakstur á piparkökum

Vigdís Sigurðardóttir býr á Ítalíu og vinkonu hennar, sem rekur eigið fyrirtæki í bænum, langaði að gefa viðskiptavinum sínum íslenskar piparkökur fyrir jólin. Kökurnar áttu að vera ætar og fallegar. Vigdís tók að sér verkið en segir að við undirbúninginn hafi nánast allt farið úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis.
×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.