Jól

Grýla vill fá krakka í pokann

Grýla og Leppalúði láta gjarnan ófriðlega. Hér eru gömlu hjónin að hrella gaulálfa.
Grýla og Leppalúði láta gjarnan ófriðlega. Hér eru gömlu hjónin að hrella gaulálfa. MYND/ÚR EINKASAFNI
Sagnaálfar og gaulálfar vöknuðu til lífsins á fyrsta sunnudegi í aðventu þegar þeir röltu úr Klausturhæð í Fljótsdal inn í Gunnarshús á Skriðuklaustri þar sem þeir sögðu heimamönnum frá og sungu um Grýlu og hyski hennar. Álfarnir hafa haft þennan háttinn á í fimmtán ár og eiga þannig góða dagsstund með fjölskyldum og börnum á þessum slóðum.

Gleðin breyttist þó þegar Grýla sjálf og Leppalúði maður hennar birtust óvænt, létu ófriðlega og reyndu að hremma óþekka krakka ofan í poka sína. Enn hefur það ekki tekist þótt þau nái stundum einum og einum álfi að sögn Skúla Björns Gunnarssonar, forstöðumanns Gunnarsstofnunar, sem fylgst hefur með þessum skrautlegu verum undanfarin ár. „Þetta hefur verið árviss viðburður hjá okkur síðustu 15 ár og markar að vissu leyti upphaf aðventunnar hér á þessum slóðum. Þegar Grýla og Leppalúði höfðu loks yfirgefið húsakynnin var slegið upp jólakökuhlaðborði hér á Klausturkaffi.”

Í Grýlukvæði Stefáns Ólafssonar frá 17. öld staðsetur hann Grýlu og Leppalúða í Fljótsdalnum og segir frá því að þau eigi sér bústað í Brandsöxl og Urðarhrauni sem eru efst á hálsinum sem rís handan við Fljótsdalinn frá Skriðuklaustri. „Við vitum svo sem ekkert meira um þessa bústaði þeirra nema að þar búa þau með hyski sínu enn þann dag í dag og koma síðan til byggða þegar líður að jólum. Og líkt og á 17. öldinni reikar Grýla um sveitina í leit að matarbita.“

Sagnaálfarnir og gaulálfarnir eru álíka gamlir og Grýla þó að ekki hafi Stefán ort um þá. „En þeir búa hérna í Klausturhæðinni og muna það þegar munkar sungu messur í klaustrinu sem stóð hér á 16. öld. Þeir kunna því frá ýmsu að segja um Grýlu og það lið allt. Síðan kunna gaulálfarnir sérstaklega mikið af söngvum um þennan óþjóðalýð.“

Skúli segir dagskrá þessa dags nokkuð hefðbundna, þó með þeirri undantekningu að aldrei er vitað nákvæmlega hverjir af álfunum skila sér né hvort gömlu hjónin koma. „Heimamenn hafa alltaf fjölmennt á þessum degi. Stundum troðfyllist húsið og þá verður nú oft mikill hávaði og læti þegar Grýla og Leppalúði birtast og leita að óþekkum börnum í hópnum. Þrátt fyrir það er þetta orðinn fastur liður í jólahaldinu hjá mörgum fjölskyldum á Austurlandi.“


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.