Veiði

Kærður veiðimaður segist brenna á altari sértrúarsafnaðar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Þessi ljósmynd af Einari olli miklu fjaðrafoki á spjallrásum stangveiðimanna.
Þessi ljósmynd af Einari olli miklu fjaðrafoki á spjallrásum stangveiðimanna. Mynd/Aðsend

Einar S. Ólafsson, sem kærður hefur verið af þjóðgarðinum á Þingvöllum fyrir að veiða án leyfis og drepa urriða úr vatninu, segist hafa verið í fullum rétti við veiðarnar. Rangur maður var kærður í fyrstu.

Einar segist hafa verið með veiðileyfi frá ábúandanum á Kárastöðum og veitt fyrir landi hans eins og hann hafi margoft gert á undanförnum áratugum. Hann hafi verið með gúmmíbát og veitt vel á spún núna um páskana. Fyrir landi þjóðgarðsins er hins vegar aðeins veitt á flugu fram til 1. júní og skylt er að sleppa öllum urriða.

Ekki hægt að stækka þjóðgarð inn í stofu
„Þjóðgarðurinn var stækkaður fyrir nokkrum árum en það er alveg klárt að þótt þjóðgarður sé stækkaður ganga menn aldrei á eignar- eða hlunnindarétt lögbýla. Þú stækkar ekki þjóðgarð inn í stofu til einhvers fólks,“ segir Einar og vísar í lög. „Þjóðgarðurinn getur sett reglur fyrir sínu landi, það er innan svokallaðra netalaga sem eru 110 metrar frá landi. Utan við það er almenningur sem allir, sem hafa á annað borð leyfi til veiða í vatninu, mega óskilyrt veiða í.“

Einar segir að í kærunni á hendur sér komi fram að Þingvallanefnd dragi í efa rétt Kárastaða til veiðileyfasölu. Um mjög mikla hagsmuni sé fyrir ábúandann að ræða og lögmenn þeirra muni vinna saman að málinu.

„Nú er málið komið í lögformlegan farveg og það er í sjálfu sér gott og ég fagna því,“ segir Einar, sem kveðst hafa orðið fyrir miklu aðkasti eftir að hann birti mynd af sér með veiðina á Facebook.

Eins og ég hafi drepið mann
„Maður er lentur inn á altari í sértrúarsöfnuði og þar brenn ég núna. Það er eins og ég hafi farið á Þingvöll og drepið menn en ekki veitt urriða og borðað hann með vinum mínum. Þessir urriðaverndarmenn eru sannfærðir um að það eigi að veiða þessa fiska og sleppa þeim; að það megi ekki taka úr stofninum. Þetta er náttúrlega eins og hver annar kjánagangur,“ segir Einar sem ítrekar að urriðastofnar í vatninu séu í uppsveiflu.

Rangur Einar kærður í fyrstu
Nafni og jafnaldri Einars S. Ólafssonar, Einar Ólafsson, var reyndar fyrir vangá fyrst kærður í málinu. „Þetta lið á Þingvöllum kærði vitlausan mann. Það er alveg fáránlegt. Síðan hringdi lögfræðingur þjóðgarðsins og baðst afsökunar,“ segir Einar Ólafsson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.