Handbolti

Danir eru sigurstranglegir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mikkel Hansen er lykilmaður hjá Dönum.nordicphotos/getty
Mikkel Hansen er lykilmaður hjá Dönum.nordicphotos/getty
Atli Hilmarsson, handboltaþjálfari og fyrrum landsliðsmaður, hefur mikla trú á Dönum á HM á Spáni. Atli býst við því að margir leikmenn á mótinu verði þreyttir eftir mikið álag á síðasta ári. Þjálfarinn segir að það sé gott fyrir handboltann að sleppa mil

Það er farið að styttast í heimsmeistaramótið í handbolta en opnunarleikur mótsins verður á föstudag er heimamenn í Spáni spila gegn Alsír. Ísland spilar sinn fyrsta leik á mótinu daginn eftir en Ísland mætir þá Rússum í Sevilla.

Fréttablaðið tók púlsinn á þjálfaranum og fyrrum landsliðsmanninum Atla Hilmarssyni, sem hefur lengi fylgst vel með alþjóðlegum handbolta, og fékk hann til þess að spá í spilin. Hvaða lið væru sigurstrangleg og hvaða lið gætu komið á óvart að þessu sinni.

„Ég held að þetta mót verði svolítið erfitt fyrir leikmenn. Það er búið að vera mikið að gera á síðasta ári þar sem var bæði EM og Ólympíuleikar. Mér finnst leikmenn vera orðnir þreyttir og það gæti kallað á óvænta hluti. Það gæti fjölgað óvæntum úrslitum sem myndi krydda mótið. Ég yrði ekki hissa ef við myndum sjá nýjar hetjur sem þurfa að leysa þreyttu leikmennina af núna," segir Atli en það sem hefur verið að gerast er að leikmenn hafa hreinlega verið að taka sér frí. Þeir þola ekki meira álag.

Ómannlegt álag

„Í mörgum tilfellum er það mjög skiljanlegt. Það er nánast ómannlegt álag á leikmenn sem eru að spila í sterku liði, fara langt í öllum keppnum eins og Meistaradeildinni og spila svo á stórmótum með landsliðinu. Ég er á meðal þeirra sem vilja endurskoða þetta stórmótaskipulag. Það er úr sér gengið að mínu mati."

Þó svo sterka leikmenn vanti í mörg lið á Atli ekki endilega von á því að einhver ný lið blandi sér í baráttuna um heimsmeistaratitilinn. Það verði kunnugleg lið að berjast um efstu sætin nú eins og svo oft áður.

„Mér finnst Danir vera lið sem gæti farið alla leið í þessu móti. Mér sýnist Mikkel Hansen vera í lagi og Danir eru því mjög sigurstranglegir. Það er sterkur kjarni í þessu liði og gríðarlega sterkir hraðaupphlaupsmenn eins og Lindberg og Eggert. Svo er Landin sterkur í markinu og mun líklega verja vel eins og venjulega. Ef Danir koma vörninni í gang hjá sér þá verða þeir illviðráðanlegir og keyra grimm hraðaupphlaup í andlit andstæðinganna. Hansen er svo einfaldlega besti leikmaður heims þegar hann er í lagi," segir Atli um hið gríðarsterka danska lið sem er í riðli með Íslandi.

Karabatic þarf að sanna sig

„Frakkar eru náttúrulega alltaf með frábært lið og maður reiknar með þeim á toppnum. Það er líka nokkrir leikmenn í þessu liði sem þurfa að sanna sig upp á nýtt. Nikola Karabatic þarf til að mynda að breyta ímynd sinni upp á nýtt. Ég held að hann verði góður," sagði Atli en hann spáir því líka að Ungverjar, sem unnu eftirminnilegan sigur á Íslandi á ÓL, geti komið á óvart.

„Með Laszlo Nagy í toppformi geta Ungverjar komið á óvart. Ég væri ekki hissa ef ungverska liðið færi langt. Ég hef minni trú á Serbum og Króötum núna. Spánverjar eru svo með svakalega gott lið og á heimavelli. Þeir eru til alls líklegir."

Króatar eru aðeins að stokka upp hjá sér og verða meðal annars án Ivano Balic á þessu móti en Balic hefur verið einn besti handboltamaður heims á undanförnum árum. Á stórmótum er hann venjulega maðurinn sem dregur vagninn fyrir Króata er þeir þurfa virkilega á hjálp að halda.

„Þeir eru að yngja upp en það vantar samt ekki gæðin í þeirra lið. Króatar framleiða fullt af leikmönnum og maður sér það á Zagreb -liðinu sem hefur oft gengið í gegnum miklar breytingar en kemur svo til baka. Ég sé þá í átta liða úrslitum en spurning hvort þeir fari í undanúrslit. Það eru minni væntingar til liðsins nú en oft áður og það gæti hjálpað þeim," segir Atli.

Hvað með lið eins og Serbíu og Makedóníu sem slógu í gegn á EM fyrir ári síðan og þá sérstaklega Serbar sem fóru alla leið í úrslit á sínum heimavelli.

„Ég hef ekki mikla trú á þeim núna. Heimavöllurinn gerði mikið fyrir Serba í fyrra en það vantar núna. Makedónía er bara Kiril Lazarov. Ef hann er í stuði getur liðið unnið fullt af leikjum. Ég hef samt ekki trú á að það gerist núna."

Kærkomnar breytingar

Breytingar hafa verið gerðar á fyrirkomulagi heimsmeistaramótsins. Milliriðlarnir heyra nú sögunni til og þess í stað er farið beint í sextán liða úrslit eftir riðlakeppnina. Hefur verið kallað eftir slíkum breytingum í nokkurn tíma og verður áhugavert að sjá hvernig þessi breyting fellur í kramið.

„Þetta er flott breyting fyrir áhorfendur. Þjálfarar myndu örugglega vilja hafa milliriðlana áfram. Að fara beint í úrslitaleiki svona snemma býður upp á óvænt úrslit. Liðin í fyrsta sæti eru ekkert endilega örugg. Áhorfendur fá því mikið fyrir sinn snúð og allt getur gerst. Ég held að það sé gott fyrir handboltann að fá svona úrslitaleiki," segir Atli. Hvaða lið sér hann fara alla leið í undanúrslitin?

„Það verða Danir, Frakkar og líklega Spánverjar. Svo gæti komið lið eins og Ungverjaland. Ég held að Ísland stoppi í átta liða úrslitum sem væri ásættanlegur árangur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×