Fastir pennar

Játningar kjósanda

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Ég hef sjaldan látið góða tískubólu fram hjá mér fara. Ég fékk mömmu til að klippa á mig tjásutopp eins og Eiríkur Hauksson var með daginn eftir að Gleðibankinn sigraði undankeppni Júróvisjón.

Ég hljóp um á klumbuskóm á barmi ökklabrots svo mánuðum skipti eftir að hljómsveitin Spice Girls söng: „Yo tell me what you want, what you really, really want“. Ég get því ekki látið hjá líða að máta hér með þann stakk sem fólk mun vafalaust taka að klæðast í auknum mæli í opinberri umræðu eftir að formaður Sjálfstæðisflokksins kom, sá og sigraði með laginu Bjarna-blús í viðtali í Sjónvarpinu fyrir skemmstu: Einlægni.

Í viðtalinu lýsti Bjarni Benediktsson áhyggjum sínum af fylgi flokksins í skoðanakönnunum og óvissri framtíð hans. Hann horfði stórum, mógráum augum á þáttarstjórnendur og kvaðst svo fullur efa um eigin burði til að leiða Sjálfstæðisflokkinn áfram að hann íhugaði að segja af sér formennsku. En svo framúrskarandi var frammistaða formannsins að ekki aðeins á hún skilið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna heldur jókst fylgi Sjálfstæðisflokksins nógu mikið við hana til að allt tal um afsögn formannsins gufaði upp eins og dögg að sumarmorgni.

Um leið og ég segi bravó Bjarni geri ég hér með tilraun til að endurspegla sambærilega einlægni, sjálfsefa, áhyggjur og ótta við hvað framtíðin ber í skauti sér – nema hinum megin við atkvæðið. Játningar stjórnmálamanns slógu í gegn. Það sem fylgir hér á eftir eru játningar kjósanda.

Upp úr klósettskálinni

Ég er eigi kona einsömul. Eftir að hafa mánuðum saman þurft að rífa höfuðið upp úr klósettskálinni með handafli til að mæta til vinnu á morgnana svo gegnsýrð af hormónum að misritað orð getur kallað fram táraflóð á við það sem kennt er við Nóa og heimskuleg ummæli stjórnmálamanns í kosningaslag jafnmikla réttláta reiði og Adam og Eva fengu að kynnast þegar þeim var sparkað út úr aldingarðinum hefur afkvæmið hlotið bráðabirgðanafnið Skrímslið.

Áhyggjur mínar er varða nánustu framtíð lúta einkum að ótta við að ég sé búin að tapa baráttunni við að finna gallabuxur sem passa yfir óléttuvömbina og líta ekki út eins og tískuslys frá áttunda áratugnum. Horfi ég hins vegar aðeins lengra fram á veginn tekur við uggur yfir þeim praktísku vafamálum sem allir foreldrar þurfa að glíma við: Formúla eða brjóstamjólk? Taubleiur eða pappírsbleiur?

Viskílögg í pelann eða ekki?

Helsta birtingarmynd óttans við eigin vanhæfni er draumur sem mig dreymir reglulega: Skrímslið er komið í heiminn en ég er búin að týna því, ég finn það hvergi sama hvað ég leita, í bakaraofninum, fataskápnum, skottinu á bílnum – alveg eins og Bjarni Ben óttast að hann sé búinn að týna fylgi Sjálfstæðisflokksins. Og rétt eins og Bjarni hefur áhyggjur af því hvaða afleiðingar komandi kosningar munu hafa fyrir framtíð flokks hans hef ég áhyggjur af því hvaða áhrif þær munu hafa á framtíð Skrímslisins.

Þynnka á Mývatni

Þrír dagar eru til kosninga og flest bendir til þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gangi senn í eina sæng. Síðast þegar þessir tveir flokkar rugluðu saman reitum skildi samband þeirra eftir sig svo sviðna jörð að nú, sex árum eftir að því lauk, glímum við enn við afleiðingarnar. Ég get því ekki annað en velt fyrir mér eftirfarandi spurningum:

- Þegar Skrímslið er orðið unglingur og fer á útihátíð á Akureyri í óþökk foreldranna sem vildu heldur að það væri heima um verslunarmannahelgina og æfði sig á píanóið, læsi Schopenhauer og sannaði hina ósönnuðu stærðfræðitilgátu Riemanns, mun það geta komið við á Mývatni í þynnkunni og notið fegurðar þess eins og þunnir útihátíðagestir hafa gert kynslóðum saman? Eða mun stöðuvatnið hafa hlotið sömu örlög og Lagarfljót, skorpnað sökum ósvalandi virkjanaþorsta stjórnmálamanna á höttunum eftir skjótfengnum gróða (í besta falli) eða fleiri atkvæðum (í versta falli)?

- Þegar Skrímslið verður dregið með í Kringluna til að kaupa í matinn þar sem það mun spranga um með hauspoka, svo mikil skömm er að sjást með foreldrum á almannafæri, mun það þá enn rýja fólk inn að skinni að fæða kjarnafjölskylduna því fósturjarðarelskandi einangrunarsinnar á Alþingi vilja ekki leyfa innflutning á matvælum sökum þess hve fögur íslenska sauðkindin er?

- Þegar Skrímslið fer út á vinnumarkaðinn til þess að safna sér pening svo það geti flutt að heiman og losnað undan yfirþyrmandi foreldrunum sem hafa ekki enn gefið upp vonina um að það leysi tilgátu Riemanns, munu skattar þess enn þá fara í að greiða niður kosningaloforð Framsóknarflokksins frá árinu 2013 um glæfralegar niðurfellingar skulda í skiptum fyrir atkvæði?

- Þegar Skrímslið fer að búa, mun það lifa við sömu háu vextina, verðbólguna og óstöðuga gjaldmiðilinn og við gerum nú vegna þess að fánaveifandi þjóðerniskútum þykir þorskurinn á íslensku krónunni blika fallegar en flúr annarra gjaldmiðla?

- Mun Skrímslið búa við gjaldeyrishöft? Mun það sjá nýja stjórnarskrá? Mun það njóta arðs af náttúruauðlindum landsins eða mun hann fara í vasa flokksgæðinga að þjóðlegum sið?

Umbun í dag

Af niðurstöðum skoðanakannana að dæma virðist sem framtíðin skipti kjósendur litlu. Með atkvæði sínu kjósa þeir umbun í dag – niðurfellingu persónulegra skulda, stórframkvæmdir í kjördæmi sínu – sama hver kostnaðurinn kann að vera fyrir komandi kynslóðir. Við Skrímslið segi ég því: Sorrí.






×