Fastir pennar

Ert þú frekja?

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Ekki er ólíklegt að þeir sem fylgdust með fjölmiðlum í síðustu viku hafi hrist höfuðið vankaðir og velt fyrir sér hvort möguleiki væri á að þeir hefðu vaknað upp á vitlausri öld.

Ljósmynd sem birtist með frétt á ruv.is um fund um Evrópusambandið með formönnum og forystumönnum helstu stjórnmálaflokkanna fór víða á veraldarvefnum. Þar sáust sitja við langborð sex prúðbúnir herramenn, hver öðrum spengilegri. Myndin var áminning um hversu marga myndarlega miðaldra karlmenn við Íslendingar eigum okkur.

Hún var hins vegar einnig harkaleg áminning um þá miklu einsleitni sem blasir við kjósendum í kosningum í vor. Nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir hefur ákveðið að stíga af hinu pólitíska sviði stefnir í að engin kona muni leiða stjórnmálaflokk í komandi kosningum.

Og fréttir vikunnar fóru aðeins niður á við fyrir áhugafólk um fjölbreytileika samfélagsins: Verðlaunin "sjónvarpsmaður ársins" tóku á sig bókstaflega merkingu þegar fimm karlmenn voru tilnefndir til þeirra en engin kona; og umræðan um ólíka túlkun karlkyns dómara Hæstaréttar og eina kvendómara réttarins um hvað telst til nauðgunar á konu náði bæði nýjum hæðum og lægðum. En af öllum þeim fréttum sem undirstrikuðu í vikunni að jafnréttisbaráttunni er hvergi nærri lokið stóð hins vegar ein upp úr.

Klofið á Sjálfstæðisflokknum

Það gengur nú fjöllum hærra að Jóhanna Sigurðardóttir sé einn mesti stríðsherra sem sést hefur í sögu lands og þjóðar – eða því sem næst. Í kjölfar þess að tilkynnt var um kjör á nýjum formanni Samfylkingarinnar steig fram heill her af að því er virðist illa löskuðum fótgönguliðum Sjálfstæðisflokksins sem lýsti yfir einum rómi hve létt þeim væri að þurfa ekki lengur að sæta höggum þessa harðsvíraða drottnara.

Sturla Böðvarsson sagði "heift og hatur" hafa einkennt stjórnartíð Jóhönnu. Helgi Magnússon, fyrrum formaður Samtaka iðnaðarins, sagði stjórnunarstíl hennar hafa "einkennst af reiði, illsku og hefndarhug einmitt á tímum þegar hefði verið hvað brýnast að ná sáttum og leiða þjóðina fram á veg".

Ætla mætti af þessum samræmdu viðbrögðum sjálfstæðismanna að fyrir forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur hafi íslensk stjórnmál einkennst af farsælli samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu; að öll dýrin hafi verið vinir í skóginum og engin ákvörðun tekin á Alþingi án stuðnings allra 63 þingmanna samkundunnar. En því fer auðvitað fjarri. Stjórnarandstaðan hefur alltaf mátt éta það sem úti frýs, því á Alþingi er það einfaldlega meirihlutinn sem ræður.

Það sætir því furðu að ætlast sé til annarra vinnubragða af hálfu forsætisráðherrans Jóhönnu Sigurðardóttur en allra annarra leiðtoga sem gegnt hafa stöðunni á undan henni. Sáu þessir sömu fótgönguliðar eitthvað athugavert við stjórnunarstíl Davíðs Oddssonar sem hafði slíkt hreðjatak á flokki sínum að greip hans herðir enn að klofi hans átta árum eftir að foringinn í Hádegismóum lét af störfum sem formaður?

Má vera að ástæða þess að menn telji sig eiga heimtingu á mjúkum handtökum og móðurlegri undanlátssemi frá Jóhönnu Sigurðardóttur sé sú að hún er kona?

Rannsóknir sýna að eftir því sem karlmenn njóta meiri velgengni því betur líkar fólki við þá. Þessu er hins vegar öfugt farið þegar kemur að konum. Því meiri velgengni sem konur njóta því verr líkar fólki við þær og þær fá á sig stimpilinn "frekja".

Ég biðst afsökunar

Ekki allar fréttir síðustu viku voru jafnniðurdrepandi og þær sem nefndar eru að ofan. VR kynnti í vikunni svokallaða Jafnlaunavottun sem hvetja á fyrirtæki og stofnanir til að greiða körlum og konum sömu laun fyrir sömu vinnu. Jafnframt mátti lesa aðsenda grein Steingríms J. Sigfússonar í Fréttablaðinu um lög sem taka senn gildi og miða að því að jafna hlutföll karla og kvenna sem sitja í stjórnum fyrirtækja. Aðgerðir sem þessar eru jafnréttisbaráttunni mikilvægar. Það þarf þó meira til.

Fyrir nokkrum mánuðum var haft samband við mig frá ónefndu stjórnmálaafli og vildi viðmælandi minn kanna hvort ég hefði áhuga á að gefa kost á mér á framboðslista (afsakið klisjuna). Ég var auðvitað upp með mér (aftur, afsakið klisjuna) en útilokaði hins vegar hugmyndina á þeim forsendum að tímasetningin væri röng, aðstæður ekki réttar og svo framvegis.

Þegar ég fór yfir fréttir síðustu viku tóku hins vegar að renna á mig tvær grímur. Mikið verk er fyrir höndum ef takast á að rétta hlut kvenna þegar kemur að áhrifum hvort sem um ræðir í pólitík, viðskiptalífinu eða fjölmiðlum. Aðgerðir eins og Jafnlaunavottunin og lög um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja geta hjálpað til. Til að fullnaðarsigur náist þurfum við konur hins vegar að "þora, geta og vilja". Þar sem ég fylgdist með hverjum jakkafataklædda, miðaldra skarfinum lýsa yfir hve mikil "frekja" Jóhanna Sigurðardóttir væri gerði ég mér skyndilega grein fyrir því að það var ekki út af óhagstæðri tímasetningu sem ég íhugaði ekki eitt andartak þátttöku í stjórnmálum.

Sannleikurinn var sá að tilhugsunin um að vera brennimerkt frekja – eða eitthvað þaðan af verra – olli mér nægum ótta til að ég segði "nei takk" án þess einu sinni að hugsa mig um.

Það er ekki nóg að ræða málin – maður verður einnig að þora að hrinda þeim í framkvæmd. Ég vil því biðjast afsökunar á heigulshætti mínum. Okkur konum ber skylda til að hugsa að minnsta kosti málið séum við í stöðu til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og minnka það valdaójafnvægi sem ríkir í samfélaginu. Ég get aðeins skammast mín og leitast við að bæta ráð mitt.

Kannski er tími til kominn að við hættum að óttast orðið "frekja". Ef "frekja" þýðir gáfuð, dugleg og metnaðargjörn kona sem lætur ekki vaða yfir sig á skítugum skónum þá vil ég vera frekja. Við ættum allar að vilja vera frekjur.






×