Innherjaveðmál Þórður Snær Júlíusson skrifar 18. janúar 2013 06:00 Lífeyrissjóðir landsins luku við að gera upp svokallaða gjaldmiðlasamninga sína við föllnu bankana í síðustu viku. Samningarnir voru gerðir upp með rúmlega 70 milljarða króna tapi. Til að milda það högg fengu sjóðirnir að skuldajafna kröfur sem þeir áttu á bankana á móti. Lokaniðurstaðan er sú að tæplega 40 milljarðar króna fóru í súginn vegna þátttöku sjóðanna í þessum veðmálum. Og veðmál eru réttnefni yfir þessa samninga, þrátt fyrir að sjóðirnir hafi viljað kalla þá gjaldmiðlavarnir fyrir erlendar eignir sínar. Í úttektarskýrslu um starfsemi lífeyrissjóðanna fyrir hrun, sem kynnt var í febrúar 2012, kom meðal annars fram að sjóðirnir hefðu aukið stöðu sína í slíkum samningum úr 900 milljónum evra sumarið 2007, þá um 75 milljörðum króna, í 2,2 milljarðar evra þegar bankarnir féllu, sem þá var um 340 milljarðar króna. Nefndin taldi þessa aukningu sýna að þessum „vörnum" hefði verið stýrt á virkan hátt. Með öðrum orðum komst hún að þeirri niðurstöðu að sjóðirnir hefðu verið að veðja á að krónan styrktist. Til að veðja þarf að minnsta kosti tvo til. Til einföldunar má segja að íslensku bankarnir hafi verið nokkurs konar spilavíti sem bauð upp á að veðja á ýmislegt með framvirkum afleiðusamningum, meðal annars gengi krónunnar. Og húsið veðjaði líka. Lífeyrissjóðirnir voru því að veðja við innherja. Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir nefnilega meðal annars að Kaupþing hafi keypt gríðarlegt magn af gjaldeyri á millibankamarkaði í lok árs 2007 og í upphafi árs 2008. Þetta leiddi meðal annars til þess að krónan féll í mars 2008. Við skýrslutökur fyrir nefndinni var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, spurður um hvernig bankinn hefði byggt upp gjaldmiðlajöfnuð. Hann svaraði því til að það hefði fyrst og fremst verið gert með framvirkum samningum við útflutningsfyrirtæki, lífeyrissjóði og jöklabréfaeigendur. Á hinni hlið veðmálsins voru síðan bankarnir sjálfir, vildarviðskiptavinir þeirra og eigendur. Í rannsóknarskýrslunni segir meðal annars að „frá því í nóvember 2007 og fram til janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana". Eigendur umræddra félaga voru á meðal stærstu eigenda Kaupþings og Glitnis og stærstu viðskiptavina allra stóru bankanna þriggja. Fyrir tæpu ári tilkynnti Lífeyrissjóður verzlunarmanna að hann ætlaði með uppgjör gjaldmiðlasamninga sinna við Kaupþing og Glitni fyrir dómstóla. Í tilkynningu hans kom fram að færð hefðu verið „efnisleg rök fyrir því að ákveðnir stjórnendur hinna föllnu banka hafi hagað sér með þeim hætti að allar líkur séu til þess að þeir hafi skaðað hagsmuni lífeyrissjóðsins með ólögmætum hætti. Þannig hafi framganga þessara aðila […] orðið til þess að veikja krónuna með óforsvaranlegum hætti". Þá grunaði sjóðinn að „forsvarsmenn hinna föllnu banka hafi hagað ráðum sínum með þeim hætti að það hafi valdið sjóðnum fjárhagstjóni". Ári síðar samdi sjóðurinn við Kaupþing. Nú standa lífeyrisþegar landsins eftir 40 milljörðum fátækari og spyrja sig af hverju. Af hverju var verið að veðja lífeyrinum þeirra með þessum hætti og af hverju er ekki farið á eftir einhverjum ef stjórnendur bankanna hafa blekkt lífeyrissjóðina með ólögmætum hætti? En þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórður Snær Júlíusson Mest lesið Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Vanvirðing við einkaframtakið og verðmætasköpun Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun Verðum að rannsaka hvað gerðist í Covid Hildur Þórðardóttir Skoðun Vegið að framtíð ungs vísindafólks á Íslandi Katrín Möller,Svava Dögg Jónsdóttir Skoðun Samfylkingin ætlar ekki að hækka tekjuskatt Alma D. Möller Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun
Lífeyrissjóðir landsins luku við að gera upp svokallaða gjaldmiðlasamninga sína við föllnu bankana í síðustu viku. Samningarnir voru gerðir upp með rúmlega 70 milljarða króna tapi. Til að milda það högg fengu sjóðirnir að skuldajafna kröfur sem þeir áttu á bankana á móti. Lokaniðurstaðan er sú að tæplega 40 milljarðar króna fóru í súginn vegna þátttöku sjóðanna í þessum veðmálum. Og veðmál eru réttnefni yfir þessa samninga, þrátt fyrir að sjóðirnir hafi viljað kalla þá gjaldmiðlavarnir fyrir erlendar eignir sínar. Í úttektarskýrslu um starfsemi lífeyrissjóðanna fyrir hrun, sem kynnt var í febrúar 2012, kom meðal annars fram að sjóðirnir hefðu aukið stöðu sína í slíkum samningum úr 900 milljónum evra sumarið 2007, þá um 75 milljörðum króna, í 2,2 milljarðar evra þegar bankarnir féllu, sem þá var um 340 milljarðar króna. Nefndin taldi þessa aukningu sýna að þessum „vörnum" hefði verið stýrt á virkan hátt. Með öðrum orðum komst hún að þeirri niðurstöðu að sjóðirnir hefðu verið að veðja á að krónan styrktist. Til að veðja þarf að minnsta kosti tvo til. Til einföldunar má segja að íslensku bankarnir hafi verið nokkurs konar spilavíti sem bauð upp á að veðja á ýmislegt með framvirkum afleiðusamningum, meðal annars gengi krónunnar. Og húsið veðjaði líka. Lífeyrissjóðirnir voru því að veðja við innherja. Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir nefnilega meðal annars að Kaupþing hafi keypt gríðarlegt magn af gjaldeyri á millibankamarkaði í lok árs 2007 og í upphafi árs 2008. Þetta leiddi meðal annars til þess að krónan féll í mars 2008. Við skýrslutökur fyrir nefndinni var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, spurður um hvernig bankinn hefði byggt upp gjaldmiðlajöfnuð. Hann svaraði því til að það hefði fyrst og fremst verið gert með framvirkum samningum við útflutningsfyrirtæki, lífeyrissjóði og jöklabréfaeigendur. Á hinni hlið veðmálsins voru síðan bankarnir sjálfir, vildarviðskiptavinir þeirra og eigendur. Í rannsóknarskýrslunni segir meðal annars að „frá því í nóvember 2007 og fram til janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana". Eigendur umræddra félaga voru á meðal stærstu eigenda Kaupþings og Glitnis og stærstu viðskiptavina allra stóru bankanna þriggja. Fyrir tæpu ári tilkynnti Lífeyrissjóður verzlunarmanna að hann ætlaði með uppgjör gjaldmiðlasamninga sinna við Kaupþing og Glitni fyrir dómstóla. Í tilkynningu hans kom fram að færð hefðu verið „efnisleg rök fyrir því að ákveðnir stjórnendur hinna föllnu banka hafi hagað sér með þeim hætti að allar líkur séu til þess að þeir hafi skaðað hagsmuni lífeyrissjóðsins með ólögmætum hætti. Þannig hafi framganga þessara aðila […] orðið til þess að veikja krónuna með óforsvaranlegum hætti". Þá grunaði sjóðinn að „forsvarsmenn hinna föllnu banka hafi hagað ráðum sínum með þeim hætti að það hafi valdið sjóðnum fjárhagstjóni". Ári síðar samdi sjóðurinn við Kaupþing. Nú standa lífeyrisþegar landsins eftir 40 milljörðum fátækari og spyrja sig af hverju. Af hverju var verið að veðja lífeyrinum þeirra með þessum hætti og af hverju er ekki farið á eftir einhverjum ef stjórnendur bankanna hafa blekkt lífeyrissjóðina með ólögmætum hætti? En þegar stórt er spurt er oft fátt um svör.