Veiði

Æsingur magnast með rjúpuveiðimönnum

Jakob Bjarnar skrifar
Næstkomandi laugardag arkar margur veiðimaðurinn af stað til fjalla í leit að jólamatnum.
Næstkomandi laugardag arkar margur veiðimaðurinn af stað til fjalla í leit að jólamatnum.
„Menn eru orðnir spenntir. Mikill æsingur kominn í menn. En það eru allir kátari en þeir voru í fyrra því nú eru fleiri veiðidagar, í fyrra þóttu þeir fáir og menn þurftu að hafa sig við,“ segir Sigurður Páll Behrend. Hann rekur, ásamt fleirum, vefinn hlunnindi.is, þar sem seld eru leyfi á rjúpnajarðir og er því  með puttann á púlsinum.

Rjúpnaveiðitímabilið hefst nú á laugardag og eru veiðimenn að undirbúa sig þessa dagana og horfa til fjalla. Sigurður Páll segir að í fyrra hafi verið vandamál að komast til veiða. Hann heyrði til dæmis af starfsmönnum Alcoa, sem gengu vaktir og komust sumir hverjir ekki á veiðislóð. „Þessir tólf dagar gera að verkum að menn fara ekki að gráta þó þeir komist ekki dag og dag. Og fyrirkomulagið er sett til 2015. Ég heyri ekki betur en menn séu almennt ánægðir með það,“ segir Sigurður Páll sem telur ráðherra hafa sýnt nokkra röggsemi með því.

Að sögn Sigurðar Páls hefur sala veiðileyfa gengið mjög vel. „Sérstaklega á þessum svæðum sem eru fyrir norðan. Þau hafa selst upp. Góð sala hér austanlands, sérstaklega niðrí Breiðdal. Þar er svæði sem heitir Jórvík og er mikið sótt í það.“  Sjálfur fer Sigurður Páll ekki til veiða að þessu sinni, hann lenti í því að öklabrjóta sig í sumar og kemst því ekki. Hann segir þá skapast svigrúm til að sinna vefnum hlunnindi.is sem fengið hefur góðar viðtökur meðal veiðimanna.

Á vef umhverfisstofnunar minna veiðmálayfirvöld á að sölubann á rjúpum en áður en það kom til stunduðu sumir duglegir veiðimenn magnveiði. Nú er mælst til þess að veiðimenn veiði fyrir sig og sína og láti þar við sitja. Hóflegt telst að veiða 6 til 7 rjúpur á byssu. Á vefnum er einnig upplýst að þó talning rjúpnastofnsins fyrr á árinu bendi til þess að hann sé á uppleið, sé engu að síður um sjöundu lélegustu talningu að ræða frá því menn fóru að meta stofnstærðina. „Það er því ekki innistæða fyrir öðru en hóflegum væntingum til rjúpnaveiðinnar.“

Fyrirkomulagið er sem hér segir:

1. helgi: Föstudaginn 25. október, laugardaginn 26. október og sunnudaginn 27. október.

2. helgi: Föstudaginn 1. nóvember, laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember.

3. helgi: Föstudaginn 8. nóvember, laugardaginn 9. nóvember og sunnudaginn 10. nóvember.

4. helgi: Föstudaginn 15. nóvember, laugardaginn 16. nóvember og sunnudaginn 17. nóvember.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.