Innlent

Bankastræti núll verði sýningarsalur

Plássið er ekki mikið í Bankastræti núll en staðsetningin í Bakarabrekkunni er ákjósanleg fyrir listamenn.
Plássið er ekki mikið í Bankastræti núll en staðsetningin í Bakarabrekkunni er ákjósanleg fyrir listamenn. Mynd/Reykjavíkurborg
„Það hafa komið listamenn til okkar og óskað eftir að fá að sýna í þessu rými,“ segir Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi á framkvæmda- og eignasviði sem spyrst nú fyrir um það hjá byggingarfulltrúa hvort innrétta megi sýningarsal í kvennasnyrtingunni í Bankastræti núll.

Hvoru tveggja kvenna- og karlasalernin í Bankastræti hafa verið lokuð um árabil og verða vísast aldrei opnuð aftur til fyrri nota þar sem þau uppfylla ekki nútímakröfur.

Kvennasalernið, sem er Bernhöftstorfumegin í Bakarabrekkunni í Bankastræti, er betur farið en karlaklósettið handan götunnar. Jón Halldór segir ætlunina meðal annars þá að gera björgunarop í garðglugga og útbúa aðstöðu fyrir einn starfsmann í rýminu sem alls er 37,5 fermetrar.

„Ef leyfi fæst munum við síðan auglýsa aðstöðuna til leigu á svipaðan hátt og til dæmis gamla turninn á Lækjartorgi,“ útskýrir Jón Halldór.

Byggingarfulltrúi vísaði í gær málinu til skoðunar hjá skipulagsstjóra borgarinnar. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×