Handbolti

Björgvin Páll: Skýli mér ekki á bak við einhver veikindi

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Björgvin Páll varði fimmtán skot í kvöld.
Björgvin Páll varði fimmtán skot í kvöld. Mynd/vilhelm
Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson lék með landsliðinu í kvöld þó svo hann hafi verið fárveikur í gær. Björgvin átti ágætan leik og varði 15 skot, þar af eitt víti.

"Ég hef ekki hugmynd um hitastið núna og vil sem minnst vita um það. Þegar ég spila samt er ég 100 prósent. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við einhver veikindi. Mér leið bara nokkuð vel á vellinum," sagði Björgvin Páll en ýmislegt hefur verið gert til þess að koma honum í gang.

"Ég var vissulega veikur í gær en fékk mikla hjálp til þess að koma mér í gang. Ýmsar töflur frá lækninum, vítamín og annað."

Björgvin segir það ekki hafa verið neitt sérstaklega skemmtilegt að vera í einangrun síðustu daga en hann mátti eðlilega ekki umgangast félaga sína vegna smithættu. "Það er ekkert spes að hanga einn í tvo daga og borða bara og horfa á handbolta."

Björgvin var rétt eins og félagar hans hundfúll með tapið í kvöld.

"Mér fannst við spila frábærlega á báðum endum og gera allt af því sem við lögðum upp með. Hornamaðurinn vinstra megin átti að fara mikið inn þar sem hann er veikastur af þeim. Hann slátraði mér samt og kláraði leikinn fyrir þá. Ég get því tekið hluta af tapinu á mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×