Handbolti

Stelpurnar í riðli með Rúmeníu, Rússlandi og Svartfjallalandi á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Pjetur
Íslenska kvennalandsliðið lenti í Austur-Evrópu riðli í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fer fram í Serbíu frá 4. til 16. desember næstkomandi en dregið var áðan á EHF-þinginu í Mónakó. Ísland er í riðli með Rúmeníu, Rússlandi, Svartfjallalandi. Riðill stelpnanna fer fram í Vrsac eða sama stað og íslenska karlalandsliðið spilaði á EM í janúar.

Íslensku stelpurnar fengu óvænt sæti í úrslitakeppninni eftir að Holland hætti við að halda keppnina og missti í framhaldinu sætið sitt en íslenska liðið var með bestan árangur af þeim þjóðum sem lentu í þriðja sæti í undankeppni EM.

Þetta er þriðja stórmót íslensku stelpnanna í röð en þær voru einnig með á EM 2010 og á HM 2011 sem fram fór í Brasilíu. Íslenska liðið var með Króatíu, Svartfjallalandi og Rússlandi í riðli á síðasta EM sem fram fór í Danmörku og Noregi í desember 2010. Í riðli Íslands í Brasilíu voru Svartfjallaland, Angóla, Noregur, Þýskaland og Kína.

Íslenska kvennalandsliðið ætti vera farið að þekkja lið Svartfjallalands vel því liðið hefur verið með Svartfellingum í riðli á öllum þremur stórumótum sínum.

Þórir Hergeirsson, þjálfari Heims- og Evrópumeistara Noregs getur verið sáttur með sinn riðil því Noregur lenti með Úkraínu, Serbíu og Tékklandi í riðli og slapp við margar sterkar þjóðir.

Riðlarnir á EM kvenna 2012:

A-riðill (Belgrad)

Noregur

Úkraína

Serbía

Tékkland

B-riðill (Nis)

Svíþjóð

Frakkland

Danmörk

Makedónía

C-riðill (Novi Sad)

Króatía

Þýskaland

Ungverjaland

Spánn

D-riðill (Vrsac)

Rúmenía

Svartfjallaland

Rússland

Ísland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×