Jólin

Grátið yfir jólastjörnum

Uppáhaldsjólaskraut Unnar Birnu er fallegar jólastjörnur. 
Mynd/Pétur Rúnar Heimisson
Uppáhaldsjólaskraut Unnar Birnu er fallegar jólastjörnur. Mynd/Pétur Rúnar Heimisson MYND/PÉTUR RÚNAR HEIMISSON
Uppáhaldsjólaskraut Unnar Birnu Vilhjálmsdóttur, lögfræðings og alheimsfegurðardrottningu, er fallegar Swarovski-jólastjörnur en ný stjarna er hönnuð á hverju ári.

„Ég set þær alltaf á jólatréð ásamt hvítri seríu og rauðum jólakúlum. Ég er mjög föst í hefðum hvað þetta varðar og sé ekki fram á að jólatréð á mínu heimili verði nokkurn tímann skreytt öðruvísi," segir Unnur og brosir.

Hún lumar á skemmtilegri sögu um jólaskrautið, en þau Pétur Rúnar Heimisson, sambýlismaður hennar, voru búin að ákveða að skreyta jólatréð saman jólin sem Unnur var ófrísk að dóttur þeirra. „Ég sofnaði seinnipart dags, daginn sem við ætluðum að skreyta tréð og þar sem ég hafði verið svo þreytt og máttlaus og með svo mikla ógleði ákvað hann að leyfa mér að sofa, vera rómantískur og skreyta fyrir okkur jólatréð.

Þegar ég hins vegar vaknaði kunni ég lítið að meta það og við tók hormónagrátkast yfir því að hann væri búinn að hengja upp stjörnurnar mínar án mín. Ég tók svo allar stjörnurnar niður, um tuttugu talsins, og pakkaði aftur ofan í kassa. Það voru svo ansi skömmustuleg skrefin daginn eftir þegar ég þurfti að pakka stjörnunum aftur upp úr kössunum og hengja þær sjálf á jólatréð nákvæmlega eins og hann hafði gert kvöldinu áður," segir hún og hlær að minningunni.

- lbh






×