Jólin

Fimleikastelpur í hátíðarskapi

Ekki slæmt að láta matreiðslumann ársins, Bjarna Siguróla, elda fyrir sig. FimleikastelpurnarúrGerplu.Frá vinstri er Harpa Snædís, Íris Mist er á endanum, þá kemur Ásdís og loks Fríða Rún.
MYND/ANTON
Ekki slæmt að láta matreiðslumann ársins, Bjarna Siguróla, elda fyrir sig. FimleikastelpurnarúrGerplu.Frá vinstri er Harpa Snædís, Íris Mist er á endanum, þá kemur Ásdís og loks Fríða Rún. MYND/ANTON MYND/ANTON
Þær Ásdís Guðmundsdóttir, Fríða Rún Einarsdóttir, Íris Mist Magnúsdóttir og Harpa Snædís Hauksdóttir, Evrópumeistarar í fimleikum og nýbakaðir bikarmeistarar Íslands, voru ánægðar með matinn sem matreiðslumaður ársins bauð þeim upp á.

„Þetta var æðislegur jólamatur og allt öðruvísi en hjá mömmu og pabba," segir Ásdís og talar fyrir þær allar. „Þetta var létt og gott en við leggjum mikla áherslu á að borða hollan mat. Við æfum mikið þannig að við þurfum ekki að hugsa mikið um mataræði á annan hátt en hollustu og að fá næga orku. Við erum samt stundum miklir nammigrísir," segir Ásdís.

Sextán stúlkur eru í meistarahópi Gerplu á aldrinum 16-27 ára. Þær hafa æft fimleika frá sex ára aldri. Þessar stúlkur urðu einnig Evrópumeistarar árið 2010 svo þær eru sannarlega afrekskonur. Ásdís segir að fyrir stórmót sé æft sex daga vikunnar í þrjár klukkustundir í senn.

„Að keppa á svona stórum mótum er það skemmtilegasta sem maður gerir. Þetta er íþrótt þar sem maður þarf stöðugt að vera að fullkomna sig og allur frítíminn fer í æfingar. Á meðan æft er fyrir stórmót eru önnur áhugamál lögð til hliðar. Við erum námsmenn og þurfum að stunda skólann meðfram svo það er lítill tími aflögu," segir Ásdís sem lýkur prófi í sjúkraþjálfun í vor. „Fimleikarnir voru kveikjan að því að ég fór í þetta nám en það hefur reynst mér vel, sérstaklega þar sem ég þjálfa ungar stelpur í fimleikum," bætir hún við.

„Í janúar tökum við þátt í stóru móti sem heitir Reykjavík International Games og verðum því að æfa töluvert í kringum jólin."

Ásdís segist vera alin upp við rjúpur á jólum en það geti verið erfitt að fá þær. „Kannski fáum við lynghænur að þessu sinni. Uppáhaldsmaturinn minn er hins vegar hreindýrapottréttur sem foreldrar mínir gera á gamlárskvöld."

- ea






×