Jólin

Sætt úr Vesturheimi

Nanna Teitsdóttir, matarbloggari og doktorsnemi, ætlar að eiga þriðju jólin sín í New York. Hún útbjó unaðslegt jólanammi á meðan nýfædd dóttir hennar blundaði í jólaljósum og amerískum jólays og þys.



Ég hlakka mikið til jólanna því við Elmar eignuðumst lítinn gleðigjafa í september og fram undan eru fyrstu jólin okkar þriggja saman,“ segir Nanna um komandi jólahátíð fjölskyldunnar í höfuðborg heimsins. 

„Jólastemning í New York er óneitanlega ólík þeirri sem maður á að venjast heima á Íslandi. Hér panta margir sér kínverskan mat, horfa á bíómyndir í náttfötunum og eru afskaplega afslappaðir á aðfangadagskvöld. Hvarvetna er þó mikið skreytt, jólalög óma í öllum búðum og margir barir sem bjóða upp á heitt jólaglögg.“

Nanna er mikið jólabarn þótt henni leiðist kuldi og skammdegi vetrarins. 

„Ég er mikil stemningsmanneskja og manninum mínum þykir hálfhlægilegt hversu snemma á haustin ég fer að huga að jólum.“ Hún segir jólaskapið læðast að sér á sama hátt í New York og í Reykjavík. „Jólaundirbúningurinn kemur mér í jólaskap og ég reyni eins og ég get að fara ekki af stað fyrr en á fyrsta í aðventu. Þá baka ég sörur og aðrar smákökur og passa að hafa ljúfa jólatóna í bakgrunninum.“

Fjölskyldan býr að sögn Nönnu í pínulítilli íbúð þar sem ekki er pláss fyrir jólatré.

„Í fyrra reddaði ég jólatrésleysinu með grenigreinum í vasa og skreytti með litlum jólakúlum. Þá þykja mér ljósaseríur og kertaljós ómissandi eins og að drekka heimalagað jólaglögg og taka því rólega með fjölskyldu og vinum.“

Eitt það skemmtilegasta sem Nanna gerir fyrir jólin er að velja jólagjafir og stundum ratar heimalagað góðgæti úr eldhúsinu í jólapakkana. „Mér finnst gaman að gefa matartengdar gjafir, hvort sem þær eru ætar eða þá sniðugt áhald í eldhúsið. Það besta við jólin er enda maturinn, góður félagsskapur og nóg af smákökum í ljósadýrð og sönnum jólaanda.“ 

Skoðið heillandi matarsíðu Nönnu á www.eldadivesturheimi.com.

- þlg






×