Jólin

Eitt elsta hús landsins á sér jólasögu

Áslaug Jóhanna Jensdóttir fyrir utan Faktorshúsið sem verður 225 ára á næsta ári.
Áslaug Jóhanna Jensdóttir fyrir utan Faktorshúsið sem verður 225 ára á næsta ári. MYND/PJETUR
Áslaug Jóhanna Jensdóttir rekur gistihús á Ísafirði en hluti starfseminnar er í Faktorshúsinu, Hæstakaupstað, sem verður 225 ára á næsta ári.Húsið á sér langa sögu og var komið í afar slæmt ástand þegar Áslaug og maður hennar, Magnús Alfreðsson húsasmíðameistari, keyptu það árið 1993 af Ísafjarðarkaupstað. Hafist var handa við miklar endurbætur árið 1998.

Húsið var reist af Björgvinjarmönnum sem komu frá Noregi eftir afnám einokunarverslunar á Íslandi. Þeir reistu átta hús en þetta er eina húsið sem eftir stendur. Í Faktorshúsinu er kaffi- og veitingahús en á efri hæð er svíta/herbergi með sér baði og lokrekkjum. Á Ísafirði eru mörg falleg gömul hús.

Elsta hús á Ísafirði er Krambúðin sem reist var árið 1757. Það stendur í Neðstakaupstað en þar er elsta húsaþyrping á landinu frá 1757-1784.

Áslaug segir að hægt sé að panta mat og drykki fyrir hópa í Faktorshúsinu en að það sé ekki formlega opið um þessar mundir.

Gamlar jólaskreytingar setja svip sinn á húsið á aðventunni. Meðal þeirra er spýtujólatré, eins og tíðkaðist á árum áður. Áslaug hefur ekki viljað skreyta húsið mikið til að það njóti sín sem best eins og það er, nýuppgert, í gömlum stíl til samræmis við húsverndunarsjónarmiðin.

Gömul jólasaga

Húsið á sér jólasögu. Áslaug segist vita til þess að á nítjándu öld hafi heimilið verið vel búið. Einn íbúa var Sophus J. Nielsen verslunarstjóri sem var langafi Erlings Blöndal Bengtssonar sellóleikara.

Sophus var alltaf með jólatrésskemmtanir fyrir börn á Ísafirði þar sem veitt var af rausn. Þá kom jólasveinn gangandi fyrir gluggana en í frásögn eftir Jón Grímsson á Ísafirði segir að hann hafi ætíð verið með rautt bengalskt blys í hendi og gríðarstóra körfu á handlegg sér. Úthlutaði hann síðan hverju barni sælgæti úr körfunni. Var jólasveinninn alltaf prýðilega útbúinn og alveg eins og jólasveinar eiga að vera, er haft eftir Jóni.

Á eftir Sophusi tók Jón Laxdal, faktor og tónskáld, við þessum sið á meðan hann bjó í húsinu. "Við endurvöktum þessa hefð fyrir tíu árum en jólasveinninn okkar á að minna á heilagan Nikulás fremur en gömlu, íslensku jólasveinana eða þann ameríska," segir Áslaug og börnin kunna vel að meta hann. "Ég hef ekki skreytt húsið að utan því það er svo fallegt í vetrarsnjónum og myrkrinu. Ljósin í húsinu gera jólalega stemningu. Ég er hins vegar með spýtujólatré og gamalt jólaskraut sem hentar vel í þetta hús. Allt jólaskrautið er úr fórum mínum og fjölskyldu minnar en gaman væri að fá meira af gömlu jóladóti," segir Áslaug enn fremur.

Féllu fyrir húsinu

Þegar Áslaug er spurð frekar um kaup þeirra á þessu gamla húsi, svarar hún: "Faktorshúsið er næsta hús við heimili okkar og var í mjög slæmu ástandi þegar við keyptum það. Þetta er merkilegt hús vegna þess hversu upprunalegt það er. Húsið var í notkun alla tíð og lengi vel höfðu AA-samtökin þarna aðstöðu undir starfsemi sína.

Það var fyrir tilviljun sem ég heyrði að það ætti að selja Faktorshúsið. Þá var ég stödd í húsi með æskuvinkonu minni þegar mágur hennar, sem sat í bæjarstjórn, kom heim af fundi þar sem sú ákvörðun hafði verið tekin. Við hjónin féllum fyrir húsinu um leið og við gengum inn í það. Þá varð ekki aftur snúið. Þegar það kom í sölu hálfu ári síðar gerðum við gott tilboð í það, en þó með tilliti til þess að kostnaðarsamt yrði að gera það upp.

Tólf árum eftir undirritun kaupsamningsins héldum við upp á að búið væri að ljúka öllum meiriháttar endurbótum á húsinu." Faktorshúsið er friðað í A-flokki og þess vegna þurftu allar endurbætur að fara fram eftir kúnstarinnar reglum, eins og Áslaug orðar það. "Jafnframt þurftum við að liggja yfir bókum um sögu hússins og svæðisins þar sem var margt áhugavert að finna. Þetta var í árdaga internetnotkunar.

Því þurfti oft að hafa mikið fyrir hlutunum. Við litum á það sem heiður og mikið tækifæri að fá þetta hús í hendur. Árið 2001 var húsið tilbúið undir veitingarekstur, síðan bættist gistingin við árið 2005," segir Áslaug. "Það finnst öllum afar sérstakt að gista í lokrekkjum í húsi frá átjándu öld, sem það reyna."

- ea

Spýtujólatré sem sett er upp í Faktorshúsi um hver jól.

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.