Handbolti

Valdi skólann fram yfir landsliðið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þorgerður Anna verður bókaormur á meðan landsliðið keppir á EM.
Þorgerður Anna verður bókaormur á meðan landsliðið keppir á EM. Mynd/Ole Nielsen
Stórskyttan tvítuga Þorgerður Anna Atladóttir fer ekki með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu í desember. Hún dró sig út úr landsliðshópnum í gær.

„Ég varð að draga mig úr vegna skóla. Ég er að fara að útskrifast úr framhaldsskóla um jólin og gat ekki fengið svör frá Ágústi þjálfara um hvort ég yrði í hópnum sem fer út fyrr en á mánudaginn," segir Þorgerður Anna en skólinn gat ekki beðið svo lengi eftir svörum.

„Ef ég hefði farið út hefði ég þurft að taka lokapróf í næstu viku áður en ég fer út. Ég skil Ágúst vel að geta ekki svarað enda meiðsli í hópnum. Ég varð því að velja og valdi skólann að þessu sinni. Þetta er samt mjög leiðinlegt og ég hef verið með í maganum yfir þessu í langan tíma. Ég gat ákveðið að fara ekki en ég gat ekki ákveðið að fara. Þetta varð því miður niðurstaðan sem ég komst að."

Þorgerður mun því einbeita sér að bókunum næstu daga en hún viðurkennir að það verði erfitt að fylgjast með liðinu úr sófanum.

„Það verður örugglega ekki skemmtilegt. Ég mun fylgjast með spennt og hvetja þær áfram," segir Þorgerður sem hefur þegar tekið þátt í tveimur stórmótum þrátt fyrir að vera aðeins tvítug.

„Ég get ekki kvartað yfir því að hafa þegar náð tveimur stórmótum. Það hafa ekki allir tvítugir leikmenn náð því. Ég á nóg eftir í handboltanum og á vonandi eftir að fá tækifærit til þess að fara á fleiri stórmót í framtíðinni," sagði þessi stórefnilega íþróttakona.

Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari skar niður um þrjá leikmenn til viðbótar í gær. Framstúlkurnar Elísabet Gunnarsdóttir og Steinunn Björnsdóttir duttu út sem og Stjörnumarkvörðurinn Sunneva Einarsdóttir. Ágúst mun svo velja endanlegan EM-hóp á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×