Innlent

Lítil kjörsókn afleiðing hrunsins

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Nokkuð ljóst er að það stefnir í minni kjörsókn en búist var við að mati prófessor í stjórnmálafræði. Hann telur minni kosningaþátttöku geta verið ein af afleiðingum hrunsins.

Kjörsókn í forsetakosningunum í dag hefur verið dræmari en í kosningum á undanförnum árum. Þannig var kjörsókn í Reykjavíkurkjördæmi suður 17% minni klukkan sex en hún var í Alþingiskosningum 2009.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir ljóst að það stefni í minni kjörsókn en búist var við. „Kjörsókn í öllum alvöru forsetakosningum hefur yfirleitt haldist í hendur við kjörsókn í Alþingiskosningum," segir Grétar en ef fer sem horfir gæti það breyst nú.

Grétar segist hafa gert sér það í hugarlund að dregið gæti úr kosningþátttöku nú þar sem slíkt hafi gerst í sveitarstjórnarkosningunum árið 2010. „Þetta gæti verið ein af afleiðingum hrunsins að dregið hafi úr kosningaþátttöku," segir Grétar.

„Þetta er eitthvað sem við höfum verið að sjá eftir hrunið að það er meiri vantrú á pólitík og einhvert meira áhugaleysi," segir Grétar. Þannig dróst kosningaþátttaka saman um 5% á milli sveitarstjórnarkosninganna 2006 og 2010. Þá fór hún úr 79% í 73%.

Þá segir Grétar erfitt að meta hvaða áhrif minni kosningaþátttaka hafi á frambjóðendur nú. Það fari eftir því í hvaða kjördæmum hún er minnst. Þannig séu frambjóðendur missterkir í ákveðnum kjördæmum og bendir Grétar til að mynda á að Þóra Arnórsdóttir hafi mælst með mest fylgi á suðvesturhorni landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×