Handbolti

Stelpurnar bakdyramegin til Serbíu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir.
Hrafnhildur Skúladóttir. Mynd/Pjetur
„Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenskan kvennahandbolta. Algjörlega stórkostlegar," segir Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, sem var skiljanlega í skýjunum eftir að hafa heyrt tíðindin í gær.

Íslenska liðið fékk sæti Hollendinga sem hættu við að halda keppnina á dögunum. Serbar, sem þegar höfðu tryggt sér þátttökurétt á mótinu, verða gestgjafar og því fékk Ísland sætið með bestan árangur þeirra liða í undankeppninni sem höfðu ekki komist áfram.

„Um leið og við lentum í Keflavík eftir Úkraínuleikinn sagði Einar (Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ) mér að Hollendingar væru hættir við að halda keppnina. Þá rauk ég í tölvuna og sá að við vorum með bestan árangur í þriðja sætinu. Þetta er stórkostlegt," segir Hrafnhildur.

Miðað var við árangur þjóðanna í þriðja sæti gegn liðunum tveimur í sætunum fyrir ofan. Ísland og Pólland unnu bæði einn leik af fjórum en markatala Íslands úr leikjunum var betri og munaði þar ellefu mörkum.

Var orðin fáránlega bjartsýn„Einhver sagði við mig að það yrði miklu erfiðara fyrir mig að kyngja því að fá ekki þetta pláss en að tapa upphaflega á móti Úkraínu. Ég var orðin það fáránlega bjartsýn," segir Hrafnhildur en þetta er þriðja stórmótið í röð sem kvennalandsliðið mætir á þó svo liðið fari bakdyramegin inn í þetta skiptið.

„Þetta er náttúrulega fáránlegt en þetta hefur gerst tvisvar hjá karlaliðinu," segir Hrafnhildur og rifjar upp Ólympíuleikana 1984 og 1992 þegar karlalandsliðið fékk óvænt sæti á leikunum. Liðið náði góðum árangri í bæði skiptin og fróðlegt verður að fylgjast með gengi stelpnanna í Serbíu.

Serbía kom strax upp í kollinnFjölmargar þjóðir lýstu yfir áhuga á að halda mótið þegar Hollendingar hættu við. Helga H. Magnúsdóttir, sem situr í mótanefnd Evrópska handknattleikssambandsins, segir Serbíu góðan kost.

„Serbía var fyrsta landið sem kom upp í hugann þegar þessi ósköp gengu yfir. Serbar voru nýbúnir að halda karlamótið sem þeir gerðu mjög vel. Það er allt klárt þar sem skiptir máli með svo stuttum fyrirvara. Það verða notaðir sömu keppnisstaðir og þeir segja að mannskapurinn sé tilbúinn og allt klárt," segir Helga.

Serbar verða einnig gestgjafar á heimsmeistaramótinu í handbolta kvenna í desember 2013 og segir Helga að handknattleiksforysta landsins njóti greinilega mikils stuðnings yfirvalda þar í landi.

Helga segir það strax hafa litið þannig út að Ísland myndi hljóta lausa sætið ef nýr gestgjafi yrði þjóð sem hefði þegar tryggt sér þátttökurétt á mótinu.

„Þetta var eiginlega borðleggjandi en maður þorir aldrei að fullyrða neitt fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir," segir Helga sem segir að þó hafi komið upp í umræðunni að Holland og Ísland myndu spila um lausa sætið.

„Sú hugmynd var hins vegar drepin í fæðingu," segir Helga.

Ísland verður því í pottinum þegar dregið verður í riðla á ársþingi EHF sem fram fer í Mónakó á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×