Handbolti

Allt verður vitlaust í Vrsac

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Guðmundur Guðmundsson og Ingimundur Ingimundarson á hliðarlínunni í Noregsleiknum.
Guðmundur Guðmundsson og Ingimundur Ingimundarson á hliðarlínunni í Noregsleiknum. Mynd/Vilhelm
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var léttur á brún daginn eftir sigurinn góða gegn Norðmönnum. Algjör lykilsigur hjá íslenska liðinu upp á framhaldið að gera á mótinu en íslenska liðinu dugir jafntefli til að komast áfram í milliriðlakeppnina með tvö stig.

„Það var mjög gott að sofna eftir Noregsleikinn. Það var góð tilfinning að landa sigri í mjög erfiðum leik gegn Norðmönnum. Menn þurfa líka að fara að átta sig á því að það er þrautin þyngri að vinna Norðmenn. Það hafa síðustu fimm leikir gegn þeim sýnt og það er ekki hægt að tala Norðmenn niður. Öll liðin í þessu móti eru góð og allir leikir hrikalega erfiðir," sagði Guðmundur og hann veit manna best að leikurinn í kvöld verður gríðarlega erfiður.

Slóvenar leggja allt í sölurnar
Mynd/Vilhelm
„Það verður allt vitlaust hérna í þessum leik. Það verður troðfull höll af Slóvenum og þeir munu leggja allt í sölurnar. Þetta er stórhættulegur leikur og stórhættulegur andstæðingur. Slóvenar hafa sýnt í síðustu leikjum að þeir eru sterkir. Þeir leiddu með sex mörkum gegn Pólverjum um daginn, gerðu jafntefli við Danmörk og hafa svo heldur betur gert Króötum og Norðmönnum lífið leitt hér í Vrsac."

Landsliðsþjálfarinn segir að margt beri að varast í leik Slóvenanna sem spila eins og stríðsmenn. Þeir hætta aldrei og spila alltaf af fullum krafti.

„Þeir spila góða vörn, berjast eins og ljón og eru með virkilega góð hraðaupphlaup. Þeir eru klókir sóknarlega með sterkan miðjumann í Uros Zorman."

Vörn og markvarsla ekki nógu góð
Mynd/Vilhelm
Guðmundur hefur ekki verið sáttur við allt í leik íslenska liðsins og segir að ýmislegt þurfi að laga fyrir átök kvöldsins.

„Varnarleikurinn og markvarslan hefur ekki verið nógu góð. Það verður að laga. Við erum búnir að fara vel yfir varnarleikinn og það þarf að fá meiri ró yfir hlutina. Það er allt of mikill æðibunugangur á okkur. Menn vaða út á vitlausum tíma, hlaupandi úr stöðum og svo framvegis. Við verðum að fá ró og yfirvegun. Ef hún kemur þá erum við með þetta," segir Guðmundur en hann hefur verið gríðarlega ánægður með sóknarleik liðsins í síðustu tveim leikjum.

Þurfum að vera klókir
Mynd/Vilhelm
„Við verðum að vera klókir í sókninni gegn Slóvenum. Við erum með ákveðna taktík gegn þeim og prófuðum hluti gegn þeim í Danmörku á dögunum og munum halda því áfram. Sóknarleikurinn hefur verið frábær. Gegn Norðmönnum skoruðum við 18 mörk í 23 sóknum sem er ótrúleg nýting."

Guðmundur veit að leikurinn verður erfiður. „Sigurinn á Noregi var gríðarlega mikilvægur en þessi riðill er mjög jafn. Það er ekkert í hendi og þetta er hreinn úrslitaleikur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×