Handbolti

Aron: Þetta er hreinn úrslitaleikur fyrir okkur

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Aron Pálmarsson og Róbert Gunnarsson sjást hér á æfingu í gær en Aron gaf ófáar línusendingarnar inn á Róbert á móti Noregi.
Aron Pálmarsson og Róbert Gunnarsson sjást hér á æfingu í gær en Aron gaf ófáar línusendingarnar inn á Róbert á móti Noregi. Mynd/Vilhelm
Aron Pálmarsson, skyttan unga, var þreytulegur en hress er við hittum á hann upp úr hádegi í gær. Aron átti magnaðan leik gegn Norðmönnum og lykilmaður í frábærum sigri íslenska liðsins.

„Nóttin var góð. Ég var reyndar lengi að sofna því það var erfitt að ná sér niður eftir leikinn. Ég svaf svo mjög vel þegar það kom," segir Aron sem getur ekki hugsað það til enda ef leikurinn gegn Norðmönnum hefði tapast.

„Ég persónulega hefði ekki nennt að fara í Slóvenaleikinn og athuga hvort við ættum að spila um tíunda eða fimmtánda sætið. Nú erum við í góðu færi á að gera eitthvað," sagði Aron en hann veit sem er að það verða átök í kvöld.

„Þeir eru gríðarlega erfiðir viðureignar. Þeir hafa sýnt það og sannað. Þeir spila fasta og góða vörn og sóknin snýst mikið um Zorman. Svo eru þeir nánast á heimavelli hérna með um 2.000 kolgeðveika stuðningsmenn á pöllunum. Þetta verður virkilega erfitt," sagði Aron en hann segist ætla að njóta þess að spila í látunum sem verða á pöllunum.

„Við erum vanir látum víða úr heiminum. Það er bara þannig að þetta er hreinn úrslitaleikur og við verðum að vinna hann til þess að fara með tvö stig inn í milliriðilinn. Við setjum þetta upp eins og það sé allt eða ekkert í þessum leik. Þannig verður það núna. Allir leikir eru úrslitaleikir fyrir okkur. Ég er alveg klár á því að við mætum tilbúnir í slaginn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×