Handbolti

Myrhol: Það verða allir vinir aftur eftir leikinn

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Bjarte Myrhol er einn allra besti línumaður heims. Hér er hann á hóteli leikmanna í Vrsac í gær.
Bjarte Myrhol er einn allra besti línumaður heims. Hér er hann á hóteli leikmanna í Vrsac í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
Norðmenn eru hæfilega bjartsýnir fyrir leikinn gegn Íslandi á morgun. Þeir búast þó við hörðum leik en síðast þegar liðin mættust var nánast slegist á vellinum.

„Ég hlakka til að spila gegn Íslandi. Það er alltaf gaman. Það verður örugglega fast tekist á eins og venjulega en menn verða þó örugglega heiðarlegir samt í sínum aðgerðum. Ég held að þetta verði jafn leikur. Ísland er kannski aðeins sigurstranglegra en við veltum okkur ekki upp úr því og hugsum um okkar leik," sagði línumaðurinn sterki, Bjarte Myrhol.

Hann spilar með þýska félaginu Rhein-Neckar Löwen sem landsliðsþjálfari Íslands, Guðmundur Guðmundsson, þjálfar og Róbert Gunnarsson landsliðsmaður leikur með.

„Það verður mjög gaman að mæta þeim. Við gleymum samt okkar sambandi í 60 mínútur á morgun og eftir leikinn eru allir vinir á nýjan leik. Þá getum við brosað aftur en við munum takast fast á."

Það var létt yfir hinum sænska landsliðsþjálfara Svía, Robert Hedin, er Fréttablaðið náði í skottið á honum í gær.

„Ísland er alltaf sigurstranglegra er það mætir Noregi," sagði Hedin og hló við. „Auðvitað vantar íslenska liðið leikmenn rétt eins og okkur reyndar. Þrátt fyrir það á íslenska liðið marga sterka leikmenn og teflir fram mjög góðu liði í þessu móti. Þetta verður því hörkuleikur þar sem allt er undir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×