Handbolti

Strákarnir fá að hita lengur upp í dag

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Það var gríðarleg óánægja með þann litla tíma sem Ísland og Króatíu fengu til að hita upp fyrir sinn leik. Ísland stendur frammi fyrir sama vandamáli í kvöld þar sem leikurinn við Noreg er seinni leikur dagsins í Vrsac.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, hefur staðið í ströngu að kvarta yfir þessu fáránlega vandamáli og ritaði mótshöldurum og mótanefnd EHF langt bréf eftir Króataleikinn. Hann segist hafa varað við þessu vandamáli í október síðastliðnum en talað fyrir daufum eyrum.

Það liggur fyrir að ekki verða gerðar neinar breytingar á tímasetningu leiksins í kvöld en mótshaldarar munu gera sitt besta til þess að gefa leikmönnum Íslands og Noregs meiri tíma til að hita upp.

Liðin fá að koma inn á völlinn um leið og fyrri leiknum lýkur. Liðin verða því byrjuð að hita upp á meðan veitt verða verðlaun fyrir fyrri leikinn. Sú athöfn tók allt of langan tíma á mánudag þegar það munaði um hverja mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×