Handbolti

Aron: Dæmigerður leikur fyrir Króatana

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Aron Pálmarsson Skoraði 5 mörk á móti Króatíu í gær en þurfti til þess 14 skot.
Aron Pálmarsson Skoraði 5 mörk á móti Króatíu í gær en þurfti til þess 14 skot. Mynd/Vilhelm
Aron Pálmarsson tók mikið af skarið í sóknarleik Íslands á móti Króatíu í gær en skotin gengu ekki nógu vel hjá honum. Hann var súr í leikslok eftir naumt tap.

„Þetta er svona dæmigerður leikur fyrir Króatana. Við erum að berjast í þeim í 55 mínútur og erum yfir nánast allan leikinn. Svo ákveða þeir að setja í fimmta gírinn og klára þetta í lokin," sagði Aron Pálmarsson eftir leikinn.

„Hann setti reyndar í lás í markinu hjá þeim en það var ekki eins og þetta væru einhverjar frábærar markvörslur því við skutum bara illa og hann var að lesa okkur vel. Hann kláraði eiginlega leikinn fyrir þá á síðustu fimm mínútunum," sagði Aron um markvörðinn öfluga Mirko Alilovic. En fóru íslensku strákarnir á taugum á lokakaflanum?

„Ef ég tala út frá sjálfum mér þá var ég sallarólegur. Hann var því miður að lesa okkur mjög vel. Hann ákvað að giska á réttu hornin á síðustu fimm mínútunum en svo telur það líka að við vorum mikið einum manni færri auk þess að við spiluðum ekki heldur nægilega vel manni fleiri," sagði Aron.

Leikur Íslands í 57 mínútur í þessum leik lofar samt vissulega góðu fyrir framhaldið.

„Við vitum alveg hvað við getum og fórum í þennan leik til að vinna hann. Við spiluðum mjög vel bæði í vörn og sókn. Ef við hefðum fengið markvörsluna öflugri þá hefðum við unnið þetta nokkuð þægilega að mínu mati," sagði Aron og hann vill líka fá fleiri hraðaupphlaupsmörk.

„Við þurfum að fá hraðaupphlaupin meira inn í þetta. Við ætluðum að vera svolítið hraðaupphlaupslið en ég held að við höfum ekki skorað nógu mikið úr þeim í dag," sagði Aron. En hversu grátlegt var þetta tap eftir góða frammistöðu?

„Það þýðir ekki að væla um það að við höfum verið grátlega nálægt þessu. Nú þurfum við bara að einbeita okkur að næstu tveimur leikjum og fá vonandi einhver stig með okkur í milliriðilinn ef við klárum þá," sagði Aron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×