Handbolti

Erum að nálgast Króata

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Landsliðsmennirnir Vignir Svavarsson, Þórir Ólafsson og Sverre Jakobsson í göngutúr í gær.
Landsliðsmennirnir Vignir Svavarsson, Þórir Ólafsson og Sverre Jakobsson í göngutúr í gær. Mynd/Vilhelm
Stóra stundin er runnin upp og í kvöld mætir Ísland einu besta handboltaliði heims, Króatíu, á EM í Serbíu. Eins og kunnugt er verður Ísland án Ólafs Stefánssonar og Snorra Steins Guðjónssonar á mótinu. Svo veiktist markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson í gær og er óvissa með hans þátttöku í kvöld.

„Það er alltaf sérstök tilfinning að hefja leik á stórmóti. Það er um margt að hugsa þessa dagana en við undirbúum okkur af kostgæfni og höfum verið duglegir að greina króatíska liðið síðustu daga," sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari þegar landsliðið var nýbúið á myndbandsfundi þar sem bardagaáætlun kvöldsins var yfirfarin.

„Ég verð að játa að fyrsta markmið okkar númer eitt, tvö og þrjú núna er að komast upp úr riðlinum. Það væri glórulaust að hugsa lengra fram í tímann. Það væri frábær árangur hjá liðinu að ná því," sagði Guðmundur en hvað með Króataleikinn í kvöld?

„Við verðum að spila gríðarlega vel til þess að leggja Króata af velli. Við gerum okkur vel grein fyrir því. Það er að mörgu leyti ágætt að byrja að mæta þeim," sagði Guðmundur en íslenska liðinu hefur gengið illa gegn Króötum síðustu ár.

„Við höfum vissulega ekki riðið feitum hesti í viðureignum okkar gegn Króötum. Við erum samt að nálgast þá eins og síðustu tveir leikir bera vitni um. Á HM í Svíþjóð í fyrra töpuðum við með einu marki gegn þeim og leiddum leikinn í 48 mínútur. Það er því allt mögulegt en við verðum samt að ná algjörum toppleik til þess að vinna."

Guðmundur viðurkennir að það sé óneitanlega sérstakt að mæta til leiks án þeirra Ólafs og Snorra sem hafa verið algjörir lykilmenn í landsliðinu í fjölda ára. Hann segir liðið ekki vera að velta sér upp úr því og stemningin í hópnum sé góð líkt og endranær.

„Það er alltaf góð stemning í kringum þetta lið og maður kannski sér ekki alveg hvernig stemningin er fyrr en ballið byrjar af alvöru. Andinn er góður í liðinu og menn eins vel stemmdir og hægt er að ég tel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×